Skoðun

Viðmælendaþjálfun RÚV og FKA

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Nýverið undirrituðu RÚV og FKA tímamótasamning sem felur í sér að næstu þrjú árin verða árlega valdar 10 konur í viðmælendaþjálfun sem fara mun fram í húsakynnum RÚV. FKA mun fá leiðbeinanda til verksins, mögulega frá öðrum fjölmiðli, en markmið samningsins er að fjölga konum í hópi viðmælenda íslenskra fjölmiðla. Samningurinn er gerður að fyrirmynd BBC en aðdraganda hans má rekja til ársins 2014 þegar FKA fékk til sín Ingibjörgu Þórðardóttur, þáverandi ritstjóra hjá BBC en nú stjórnanda hjá CNN, sem gest á fjölmiðladegi FKA. Ingibjörg sagði þá frá því hvernig BBC hefði unnið að því að fjölga konum sem viðmælendum með þjálfun. Árið 2017 fékk FKA síðan til sín Mary Hockaday frá BBC sem gest sem sagði þá frá því hvar helstu þjálfunarverkefni væru stödd og hversu mikið hefði áunnist með því að fjölga konum sem viðmælendur.

Áhuginn á verkefninu er mikill en við sem höfum lengi starfað á fjölmiðlum vitum að það eru mun fleiri einstaklingar sem hafa áhuga á að koma sjálfum sér á framfæri í fjölmiðlum, í samanburði við þá sem eiga í raun erindi þangað. Viðmælendaþjálfunin mun hins vegar snúast um síðarnefnda hópinn og þann hóp mun FKA skilgreina með því að fá upplýsingar frá fjölmiðlafólki í hvaða geirum eða sérsviðum fjölmiðlum vantar að finna fleiri konur. Þessi háttur á vali er eitt af lykilatriðum BBC enda líklegasta leiðin til að tryggja að konurnar sem hljóta þjálfunina verði í kjölfarið sýnilegar í fréttum. Þar sýna tölur að enn hallar á konur. Ég vil því hvetja fyrirtæki, stofnanir og aðra til að nýta tækifærið og tefla konum oftar fram sem talsmönnum í fjölmiðlum. Það eitt og sér er tækifæri í sjálfu sér því áhugi fjölmiðla er til staðar og fyrir löngu úrelt að benda alltaf á sama „karlinn“ fyrir öll viðtöl.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×