Ástæðan fyrir nuddinu segir Klemens vera þá að hann sé svo stífur í öxlunum vegna þrotlausrar vinnu sem hann hefur innt af hendi við að reyna að kremja kapítalismann.
„Það hefur verið mikil spenna. Það er ekki auðvelt verk að vinna að því að binda endi á kapítalisma svo að Matthías hefur einbeitt sér að því að nudda á mér axlirnar á hverjum degi í fimm til tíu mínútur á tveggja klukkutíma fresti.“
Þeir hafi viljað fá nuddara með í ferðina en hefðu ekki fengið sínu fram.
Í viðtalinu tók það Matthías og Klemens tæpa mínútu að reyna að ná fanga tónlistarstíl Hatara. Eftir að hafa fleygt fram orðum á borð við hámenning, andkapítalismi, sviðslistir, BDSM og fleira hitti Klemens naglann á höfuðið þegar hann sagði:
„Ef ABBA hefðu verið marxískari“.
Matthías og Klemens tróðu upp á tónleikum í Amsterdam í gær við mikinn fögnuð tónleikagesta sem sungu með „Hatrið mun sigra“ á bjagaðri íslensku.