Óli Stefán Flóventsson stýrði KA-mönnum til sigurs á Íslandsmeisturum Vals í annarri umferð Pepsi Max deildar karla í knattspyrnu í gær.
Þetta er þriðja árið í röð sem Óli Stefán vinnur heimaleik á móti Ólafi Jóhannessyni og lærisveinum hans í Val.
Valsmenn hafa aðeins tapað fimm deildarleikjum undanfarin þrjú tímabil og þrír þeirra, eða 60 prósent, hafa komið í leikjum á móti liðum undir stjórn Óla Stefáns. FH-þjálfararnir Heimir Guðjónsson (2017) og Ólafur Kristjánsson (2018) tókst líka að vinna Val einu sinni hvor.
Ólafur Kristjánsson stýrði reyndar FH til sigurs á móti Val á Hlíðarenda í bikarnum í síðustu viku en fyrir ári síðan var það Ágúst Þór Gylfason og lærisveinar hans í Breiðabliki sem slógu Valsmenn út úr bikarkeppninni.
Markakóngurinn Andri Rúnar Bjarnason skoraði síðan sigurmarkið á móti Val fyrir tveimur árum þegar hann nýtti sér misskilning milli markvarðar og varnarmanns Valsliðsins.
Hallgrímur Mar Steingrímsson tryggði KA sigurinn á Akureyri í gær með því að skora eina mark leiksins úr vítaspyrnu á 54. mínútu leiksins en í fyrra kom sigurmarkið beint úr aukaspyrnu þremur mínútum fyrir leikslok.
Valsmenn geta huggað sig við það að öll þessi töp á móti liðum Óla Stefáns hafa komið snemma á tímabilinu og bæði hin tímabilin tryggði Valsliðið sér svo Íslandsmeistaratitilinn um haustið. Það má því segja að tap á móti Óla Stefáni boði gott.
Heimaleikir Óla Stefáns Flóventssonar á móti Ólafi Jóhannessyni 2017-2019:
2017 - 5. umferð
Grindavík vann 1-0 sigur á Val
Sigurmarkið: Andri Rúnar Bjarnason á 50. mínútu
2018 - 5. umferð
Grindavík vann 2-1 sigur á Val
Sigurmarkið: Jose Enrique beint úr aukaspyrnu á 87. mínútu
2019 - 2. umferð
KA vann 1-0 sigur á Val
Sigurmarkið: Hallgrímur Mar Steingrímsson úr víti á 54. mínútu
Þjálfarar sem hafa unnið lærisveina Ólafs Jóhannssonar í deildinni frá 2017:
3 sigrar - Óli Stefán Flóventsson (Grindavík og KA)
1 sigur - Heimir Guðjónsson (FH)
1 sigur - Ólafur Kristjánsson (FH)
