Matvælastofnun hefur skoðað upplýsingar um innihaldsefni vörunnar á sölusíðum og umbúðum og eftir samráð við Lyfjaeftirlit ÍSÍ komist að því að meðal innihaldsefna er örvandi lyfið beta-Phenylethylamin sem er afleiða phenethylamine. Efnið phenethylamine og afleiður þess eru á lista WADA (World Anti-Doping Agency) yfir bönnuð efni og eru bönnuð í keppni.

Samkvæmt 9. gr. laga um matvæli er öll dreifing matvæla starfsleyfisskyld, þ.m.t. innflutningur. Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga gefur út starfsleyfi fyrir dreifingu og innflutningi fæðubótarefna. Mikilvægt er að hafa í huga að öll ábyrgð á matvælum hvílir á herðum framleiðenda, innflutningsaðila og dreifingaraðila.