Innlent

Mættu snemma ef þú átt bókað flug frá Keflavíkurflugvelli

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Ferðamenn á Keflavíkurflugvelli
Ferðamenn á Keflavíkurflugvelli Vísir/Vilhelm
Isavia hvatti í kvöld flugfarþega, sem eiga bókað flug frá Keflavík, að mæta fyrr en ella. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Þar segir jafnframt að búast megi við nokkru álagi á Keflavíkurflugvelli fyrir fyrstu brottfarir að morgni, og er tilmælunum beint til farþega sem eiga bókað flug einhvern tímann á tímabilinu til októberloka.

Farþegar sem eiga bókað flug á milli klukkan sjö til níu að morgni eru hvattir til þess að mæta að minnsta kosti 2,5 tíma fyrir brottför til þess að koma hjá aukinni bið við innritun og öryggisleit.

Orsök álags á þessu tímabili er að breyting hefur orðið á dreifingu ferða flugfélaga og hafa ferðir sem áður voru áætlaðar seinna um morguninn verið færðar í fyrsta brottfararhluta dagsins.

Í tilkynningu Isavia kemur fram að innritun og öryggisleit á vellinum opni klukkan fjögur, alla morgna.

Farþegar eru beðnir um að kynna sér þær reglur sem gilda í öryggisleit og hvernig best sé að haga ferð sinni til að flýta fyrir.

Hér má lesa leiðbeiningar um öryggisleit á Kveflavíkurflugvelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×