Knattspyrnulandslið Andorra hefur verið eitt allra lélegasta lið evrópskrar knattspyrnu undanfarna áratugi og það heyrir til tíðinda þegar liðið vinnur leik, líkt og gerðist í gær þegar Marc Vales tryggði Andorra 1-0 sigur á Moldavíu í riðli okkar Íslendinga í undankeppni EM 2020.
Þetta var raunar fyrsti sigur Andorra frá upphafi í undankeppni EM en þegar kom að leiknum í gær hafði Andorra tapað öllum 56 leikjum sínum í undankeppni EM frá því Andorra tók fyrst þátt í undankeppni EM 2000.
Það verða því sigurreifir Andorramenn sem mæta strákunum okkar á Laugardalsvelli næstkomandi mánudag en Ísland þarf nauðsynlega á þremur stigum að halda í baráttunni við Tyrki um 2.sæti riðilsins.
Andorra hefur staðið sig eilítið betur í undankeppnum fyrir HM en þar hefur liðið unnið tvo leiki, gert þrjú jafntefli en tapað 47 leikjum.
Allir þrír sigrar Andorra í alvöru keppnisleikjum hafa unnist 1-0.
Fótbolti