Íslenski boltinn

Gunnar: Einfaldlega ekki búnir að vera nógu góðir

Smári Jökull Jónsson skrifar
Gunnar Þorsteinsson var þungur á brún í leikslok í dag.
Gunnar Þorsteinsson var þungur á brún í leikslok í dag. vísir/bára
„Það þarf engan stjarneðlisfræðing til að sjá að staðan er ansi svört. Það þarf algjört kraftaverk til að bjarga okkur,“ sagði Gunnar Þorsteinsson fyrirliði Grindavíkur eftir tap gegn KA í Pepsi Max-deildinni í dag.

Fyrir leikinn voru KA-menn þremur stigum á undan Grindavík í fallbaráttunni og því um afskaplega mikilvægan leik að ræða. Eftir tapið er staða Grindavíkur erfið.

„Mér var kennt að það eru tvær leiðir til að tapa eða falla, annaðhvort að gera það með hangandi haus eða spila þar til feita konan syngur. Við munum gera okkar allra besta í síðustu þremur leikjunum og láta það í hendur æðri máttarvalda hvort það verður nóg eða ekki,“ sagði uppgefinn fyrirliði heimamanna í samtali við Vísi eftir leik í dag.

Grindvíkingar pressuðu KA-menn aðeins síðustu tuttugu mínúturnar en voru oft á tíðum fáliðaðir í sóknarleik sínum og sköpuðu sér ekki eitt gott færi í dag.

„Það má velta taktík fyrir sér og hvort við hefðum átt að pressa fyrr. Við skiptum um kerfi núna og við erum að reyna og reyna. Við erum gjörsamlega að leggja hjarta og sál í þetta, leikmenn, þjálfarateymi og stjórn.“

„Stundum er það bara ekki nóg og þegar besta færi okkar er eitt skot úr D-boganum þá áttu voðalega lítið skilið. Sama hversu mikið maður heftur lagt sig fram eða hversu fá mörk við höfum fengið á okkur þá erum við einfaldlega ekki búnir að vera nógu góðir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×