Á vefnum er tekið fram að ætlunin sé að fjármagna endurreisn WOW air eða stofnun nýs lággjaldaflugfélag með Skúla Mogensen, fyrrverandi forstjóra WOW air, og hans „besta fólk“ í broddi fylkingar. Skúli Mogensen sagðist fyrr í dag ekkert þekkja til þessarar síðu eða þeirra sem standa að baki henni.
„Fólk þarf að passa sig á svona,“ segir Theodór Gísli Ragnarsson, tæknistjóri hjá Syndis, um vefinn Hluthafi.com.

„Ef það er ekki hægt að komast að því hverjir standa á bak við þetta, þá finnst mér þetta mjög hæpið. Þó ég hefði ekkert á móti því að WOW komi aftur, það er ekki málið.“
Á vefnum er óskað eftir loforði frá einstaklingum um hlutafé sem færi í stofnun nýs hlutafélags sem kæmi að endurreisn WOW eða stofnun nýs lággjaldaflugfélags. Er því lofað að loforðið um hlutaféð falli niður ef ekkert verður af endurreisn WOW air eða nýtt félag stofnað. Er hlutafjárloforðið bindandi í 90 daga.
Í svari við fyrirspurn fréttastofu tóku forsvarsmenn vefsins fram að þeir sem skrá sig í áskrift á vefnum verði boðið á stofnfund nýs hlutafélags en von sé á yfirlýsingu frá hópnum á morgun eða þriðjudag.