Enski boltinn

Kemur ekki í ljós fyrr en á síðustu stundu hvort Gylfi geti spilað í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson í leik með Everton á móti Chelsea á dögunum.
Gylfi Þór Sigurðsson í leik með Everton á móti Chelsea á dögunum. Getty/Chris Brunskill

Gylfi Þór Sigurðsson og félagar spila í kvöld í átta liða úrslitum enska deildabikarsins en það óvíst hvort við sjáum Gylfa eitthvað á skjánum í kvöld.

Gylfi missti af leiknum á móti Manchester United um síðustu helgi vegna veikinda en hann veikist á hóteli Everton liðsins daginn fyrir leikinn.

Gylfi var því ekkert á svæðinu þegar Everton náði 1-1 jafntefli á móti Manchester United á Old Traford á sunnudaginn.

Duncan Ferguson, starfandi knattspyrnustjóri Everton, var spurður út í Gylfa á blaðamannafundi fyrir leikinn á móti Leicester City.



„Við erum vongóðir með Gylfa en við verðum að bíða og sjá. Það mun ekki koma í ljós fyrr en á síðustu stundu hvort hann geti spilað,“ sagði Duncan Ferguson.

Djibril Sidibe er líka veikur eins og Gylfa en þeir misstu báðir af United leiknum.

Lucas Digne meiddist í leiknum á Old Trafford og getur ekki spilað í kvöld ekki frekar en Fabian Delph.



Leikur Everton og Leicester City á Goodison Park hefst klukakn 19.45 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.

Aston Villa er þegar komið í undanúrslit enska deildabikarsins en það kemur síðan í ljós í kvöld hver hin þrjú liðin verða.

Leikur Manchester United og Colchester United hefst klukkan 20.00 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 2. Þriðji leikur kvöldsins er síðan á milli Oxford og Manchester City.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×