Körfubolti

Nýi Bandaríkjamaður botnliðsins hefur spilað bæði með OKC og FSU

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Terrance Motley
Terrance Motley vísir/getty
Körfuboltalið Þórs á Akureyri er að skipta um bandarískan leikmann í liði sínu í Dominos deild karla í körfubolta í þriðja sinn á þessu tímabili.

Akureyringar hafa samið við Terrance Motley en hann er mættur til landsins og hefur æft með Akureyrarliðinu síðan á föstudag. Hans fyrsti leikur verður gegn Keflavík næstkomandi fimmtudag.

Motley þessi er ekki alls ókunnur íslenskum körfubolta því hann lék með FSU í 1.deildinni 2016-2017 þar sem hann skilaði flottum tölum; skoraði 31,3 stig að meðaltali í leik auk þess að taka 13 fráköst að meðaltali.

Hann var á mála hjá varaliði NBA liðsins Oklahoma City Thunder eftir háskólaboltann en lék aðeins einn leik með liðinu. Hann hefur einnig leikið í Mexíkó.

Þórsarar eru enn án sigurs eftir fimm umferðir í Dominos deild karla en þeir slógu Snæfell úr Geysisbikarnum í gærkvöldi. Lék Motley ekki með liðinu þar en Jamal Palmer, sem er væntanlega á förum frá félaginu, var stigahæstur í leiknum með 16 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×