Cardiff keypti Argentínumanninn Emiliano Sala frá Nantes 19. janúar 2019 en hann lék aldrei með velska félaginu því hann fórst í flugslysi á Ermarsundi á leið frá Frakklandi til Wales 21. janúar.
Síðan þá hafa félögin deilt um hvort Cardiff eigi að borga pening fyrir leikmann sem spilaði aldrei fyrir félagið. FIFA hefur nú kveðið upp endanlegan dóm sinn í málinu og hann er með franska félaginu.
Fifa are releasing full details of decisions taken by their committees; this one, that Cardiff must pay Nantes the transfer fee for the late Emiliano Sala, imposes a 3 window transfer embargo if Cardiff don't pay within 45 days. https://t.co/1rRoKSAhHB
— David Conn (@david_conn) November 4, 2019
David Conn, blaðamaður á Guardian, segir frá þessu á Twitter-síðu sinni í dag. Hann segir að þar komi fram að Cardiff þurfti að greiða allan peninginn sem var samið um fyrir Emiliano Sala eða eiga það á hættu að vera dæmt í þriggja glugga bann. Cardiff fær líka aðeins einn og hálfan mánuð til að gera upp.
Cardiff City samdi um að borga fimmtán milljónir punda fyrir Sala sem gerði hann að dýrasta leikmanninum í sögu velska félagsins. Sala var 28 ára gamall þegar hann lést en hann hafði spilað í franska boltanum síðan hann var tvítugur.
Þriggja glugga bann þýddi það að Cardiff mætti ekki kaupa nýjan leikmann fyrr en sumarið 2021. Næstu þrír gluggar eru janúar 2020, sumarið 2020 og janúar 2021.