Ný framkvæmdastjórn tekur við stjórnartaumunum 1. desember, mánuði síðar en upphaflega var áætlað. Frestaðist embættistakan um mánuð vegna deilna um einstaka framkvæmdastjóra sem aðildarríkin höfðu tilnefnt.
Von der Leyen tekur við embætti forseta framkvæmdastjórnarinnar af Jean-Claude Juncker. Verður hún fyrsta konan til að gegna stöðunni og segir hún að hennar teymi muni veita Evrópu „nýtt upphaf“ þar sem áhersla verði lögð á baráttuna gegn loftslagsbreytingum.

Alls eiga 27 framkvæmdastjórar sæti í framkvæmdastjórninni – einn frá hverju aðildarríki. Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, ákvað að tilnefna ekki breskan framkvæmdastjóra þar sem Bretar stefna að útgöngu úr sambandinu.
„Einn meðlimur fjölskyldu okkar ætlar sér að yfirgefa sambandið okkar,“ sagði von der Leyen á þinginu fyrir atkvæðagreiðsluna. Við það brutust út mikil fagnaðarlæti meðal Evrópuþingmanna Brexit-flokksins. Von der Leyen hélt þá áfram: „Yfirgnæfandi meirihluti þingsins virðist ánægður með að þessi litli hópur muni framvegis ekki geta klappað eins hátt.“ Þá hló þingheimur og klappaði.