Erlent

Um­hverfis- og efna­hags­mál í brenni­depli í að­draganda kosninga í Ástralíu

Atli Ísleifsson skrifar
Bill Shorten og Scott Morrison í kappræðum í aðdraganda kosninganna.
Bill Shorten og Scott Morrison í kappræðum í aðdraganda kosninganna. Getty
Verkamannaflokkurinn í Ástralíu mælist með naumt forskot í skoðanakönnunum, degi fyrir þingkosningarnar þar í landi. Umhverfismál og efnahagsmál hafa verið mest áberandi í kosningabaráttunni.

Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu, hefur verið gagnrýndur fyrir að vera of vilhallur í garð koliðnaðar og þá hafa andstæðingar Bill Shorten, leiðtoga Verkamannaflokksins, sakað hann um vera ekki treystandi til að fara með fjármál landsins.

Skoðanakönnun Sydney Morning Herald og The Age bendir til að Verkamannaflokkurinn fái 51 prósent fylgi, og Frjálslyndi flokkur Morrison og stuðningsflokkar hans 49 prósent. Er því búist við að naumt verði á munum þó að forysta Verkamannaflokksins hafi verið nokkuð stöðug í könnunum.

Í kosningabaráttunni hefur spjótunum verið beint að Morrison þar sem hann hefur átt í vandræðum með að útskýra hvernig Ástralía skuli standa við skuldbindingar sínar í loftslagsmálum, en Ástralir glíma reglulega við bæði þurrka og mikil flóð. Hefur Morrison ekki viljað draga úr vægi kols þegar kemur að orkugjöfum framtíðarinnar í Ástralíu, en kolaiðnaðurinn er rótgróinn í Ástralíu og mikilvæg útflutningsvara fyrir Ástrali.

Andstæðingar Shorten hafa fyrst og fremst sagt að honum sé ekki treystandi til að stýra efnahag landsins og segist Morrison geta heitið áframhaldandi blómstrandi efnahag eftir sex ára hægristjórn. Hefur Morrison verið duglegur að notast við frasann „A bill you can‘t afford“ (í Bill/reikningur sem þið hafið ekki efni á), þar sem hann vísar í fornafn andstæðings síns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×