Innlent

Þrír enn á gjörgæslu eftir slysið við Hof

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Sjúklingur fluttur inn á Landspítala í gær.
Sjúklingur fluttur inn á Landspítala í gær. Vísir/Vilhelm
Þrír af fjórum einstaklingum sem fluttir voru alvarlega slasaðir á Landspítala í Fossvogi um kvöldmatarleytið í gær vegna rútuslyss á Suðurlandsvegi við Hof eru enn á gjörgæslu. Fjórði einstaklingurinn hefur verið fluttur á bráðalegudeild spítalans. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landspítalanum.

Alls voru 33 í rútunni sem valt norðan við Fagurhólsmýri um þrjúleytið í gær, ferðamannahópur frá Kína og bílstjóri. Þrír einstaklingar til viðbótar við áðurnefnda fjóra leituðu aðhlynningar á Landspítala í gærkvöldi en voru útskrifaðir samdægurs, að því er fram kemur í tilkynningu. Sjúkrahús á Selfossi og Akureyri sinntu öðrum í hópnum.

Landspítali var settur á gult viðbúnaðarstig vegna slyssins en upphaflega var talið að fleiri væru alvarlega slasaðir en raun bar síðan vitni. Var því leitað til sjúkrahúsa í Reykjanesbæ og á Akranesi og sjúklingar fluttir þaðan frá Landspítala.

„Landspítali þakkar þessum aðilum sérstaklega gott samstarf og sömuleiðis jafnt sjúklingum sem aðstandendum þeirra. Allir sýndu stöðunni mikinn skilning,“ segir í tilkynningu Landspítala. Samstarf viðbragðsaðila hafi jafnframt verið „hnökralaust“.

Sveinn Kristján Rúnarsson yfirlögregluþjónn á Suðurlandi sagði í samtali við Vísi í morgun að skýrsla verði tekin af farþegum í dag. Kannað verði nánar við skýrslutökuna hvort farþegarnir hafi verið í bílbeltum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×