Vatn hefur flætt yfir götur New Orleans og lamað umferð í dag, eftir að heljarinnar stormur geysaði skyndilega á svæðinu. Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í borginni vegna flóðs. Yfirvöld og íbúar hafa áhyggjur af því að flóðið gæti reynst undanfari fellibyls.
Götur borgarinnar hafa margar hverjar umturnast í litla árfarvegi sem flytja sumir með sér ruslatunnur og fljótandi viðarspýtur, að sögn sjónarvotta. Vatnið hefur náð upp fyrir dyr margra bíla og hafa bifreiðar víða verið yfirgefnar. Í sumum götum sást fólk reyna að komast leiðar sinnar á róðri um borð í kajökum.
Dæmi eru um að fólk í borginni hafi þurft að vaða í gegnum vatn 1,22 metra að hæð til þess að komast í öruggt skjól.
Yfirvöld hafa gefið út að þó 118 af alls 120 fráveitudælum borgarinnar hafi verið starfandi, þá hafi regnmagnið verið svo mikið á stuttum tíma að það reyndist ómögulegt fyrir frárennsliskerfið að ráða við magnið.
