Viðskipti innlent

Útgáfufélag Fréttablaðsins skilaði 39 milljóna króna hagnaði í fyrra

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Jón Ásgeir Jóhannesson og Ingibjörg Pálmadóttir.
Jón Ásgeir Jóhannesson og Ingibjörg Pálmadóttir. VÍSIR/VILHELM
Torg, útgáfufélag Fréttablaðsins, hagnaðist um tæplega 39 milljónir króna eftir skatta á síðasta ári, samkvæmt nýjum ársreikningi félagsins. Rekstrartekjur Torgs voru 2,57 milljarðar króna á árinu.

Þá var EBITDA útgáfufélagsins – afkoma fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta – jákvæð um 109 milljónir króna í fyrra, að því er fram kemur í ársreikningnum.

„Frekjulegt inngrip Ríkisútvarpsins í kringum auglýsingasölu í tengslum við Heimsmeistaramótið í knattspyrnu seinni part ársins hafði mjög afdrifarík áhrif á rekstur Torgs,“ segir Ingibjörg Stefanía Pálmadóttir, forstjóri og helmingshluthafi Torgs.

„Þrátt fyrir yfirgang RÚV á markaði stendur Fréttablaðið framar öllum auglýsingamiðlum á Íslandi, hvort sem um ræðir vef- eða samfélagsmiðla, og skilar hagnaði á síðasta rekstrarári,“ bætir hún við.

Eignir Torgs, sem á og rekur Fréttablaðið, frettabladid.is, mark­adurinn.is, tímaritið Glamour og tengda starfsemi, námu 1,27 milljörðum króna í lok síðasta árs en á sama tíma var eigið fé félagsins 502 milljónir króna og eiginfjárhlutfallið því 40 prósent.

Sem kunnugt er keypti félag í eigu Helga Magnússonar, fjárfestis og fyrrverandi stjórnarformanns Lífeyrissjóðs verslunarmanna, nýverið helmingshlut í Torgi og tók Helgi í kjölfarið sæti í stjórn útgáfufélagsins. Félög á vegum Ingibjargar fara með helming í Torgi á móti Helga. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×