Myndbandið, sem sjá má hér að neðan, hefur verið í mikilli dreifingu á samfélagsmiðlum, en það var landeigandinn Inga Linda Gestsdóttir, sem tók upp og birti á Facebook í fyrradag.
Á myndbandinu, sem sjá má hér fyrir neðan, sést hvernig Víðidalsá, sem var frekar vatnslítil í fyrradag, breytist í beljandi stórfljót á örskotsstundu.
„Ég var að koma heim úr vinnunni og þá sá ég að áin var komin af stað þarna fyrir ofan. Þá dreif ég mig niður í gljúfur því að það er gaman að sjá þetta þar,“ segir hún.
Hún segir að flóðið hafi ekki tekið langan tíma að flæða niður fossinn og gilið en rennsli árinnar er eðlilegt í dag. Hún segir að það hafi verið tilkomumikið að upplifa náttúruna á þennan hátt.
„Það var gaman að heyra brestina í ísnum og svona. Þetta var ótrúlega flott. Það var gaman að upplifa þetta og einstakt að ná þessu.“