Erlent

Rannsaka breska samverkakonu Epstein og fleiri

Kjartan Kjartansson skrifar
Ghislaine Maxwell vann lengi fyrir Epstein. Hún hefur verið sökuð um að hafa fundið stúlkur sem hann seldi síðan mansali og misnotaði.
Ghislaine Maxwell vann lengi fyrir Epstein. Hún hefur verið sökuð um að hafa fundið stúlkur sem hann seldi síðan mansali og misnotaði. Vísir/Getty

Bandaríska alríkislögreglan FBI er nú sögð rannsaka Ghislaine Maxwell, breska samverkakonu Jeffrey Epstein, bandarísks auðkýfings sem sakaður var um misnota og selja fjölda stúlkna mansali. Rannsóknin er sögð beinast að einstaklingum sem gætu hafa liðkað fyrir brotum Epstein.

Epstein framdi sjálfsvíg í fangelsi í New York í sumar eftir að hann var handtekinn og ákærður fyrir mansal. Reuters-fréttastofan hefur eftir heimildum sínum að þrátt fyrir að Maxwell, sem vann lengi fyrir Epstein, sæti nú rannsókn þá sé hún ekki sökuð um glæp að svo stöddu.

Þá er alríkislögreglan sögð fylgja eftir fjölda ábendinga sem hún fékk frá konum sem höfðu samband við símalínu sem var opnuð eftir að Epstein var handtekinn í júlí.

Ekki kemur fram hverjir fleiri eru til rannsóknar en heimildarmenn Reuters segja að FBI hafi engin áform um að taka skýrslu af Andrési prins af Bretlandi. Rannsóknin beinist að þeim sem gerðu Epstein kleift að fremja brot sín og Andrés falli ekki undir þá skilgreiningu.

Giuffre segir að hún hafi verið sautján ára gömul þegar Epstein þvingaði hana til samræðis við Andrés prins.AP/Michel Euler

Virginia Giuffre fullyrðir að Epstein hafi þvingað sig til að undirgangast misnotkun Andrésar prins og annarra vina hans. Maxwell hefur sakað Giuffre um lygar. Í einkamáli vegna meiðyrða sem Giuffre höfðaði gegn Maxwell vegna þess fullyrti sú fyrrnefnda að Maxwell hefði komið henni í kynni við Epstein á sínum tíma.

Andrés prins hefur hafnað allri sök. Hann lét engu að síður af opinberum embættisathöfnum í nóvember í ljósi vináttu hans við Epstein sem hann viðurkenndi að hafi byggst á „slæmri dómgreind“. Heimildarmenn Reuters útiloka ekki að FBI gæti reynt að ná tali af Andrési síðar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×