Fréttir hafa verið sagðar af lokun veitingastað undanfarnar vikur, þar á meðal Dill og Ostabúðarinnar, en eigandi þess síðarnefnda sagði í viðtali á Bylgjunni í vikunni að rekstrarumhverfi í miðborginni væri sérstaklega erfitt því mörgum sé hleypt inn á markaðinn. Í miðborginni séu ekki aðeins fjöldi veitingastaða heldur einnig fjöldi matarvagna.
Eigandi Ostabúðarinnar er Jóhann Jónsson en hann sagði að ekki væri markaður fyrir allan þennan hóp og nefndi að 35 þúsund sæti væru fyrir matargesti í miðborginni. Úti á Granda séu þau orðin tólf til þrettán hundruð talsins.
Veitingamenn hafa margir hverjir haft á orði undanfarin misseri að borgin veiti of mörg leyfi til veitingarekstur í miðborginni en Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags- og samgönguráðs borgarinnar, segir þennan kvóta aðeins eiga við fjölda verslana við ákveðnar götu í miðborg Reykjavíkur.

Mun teygja sig upp á Suðurlandsbraut
Eftir því sem ferðamönnum fjölgaði í miðborg Reykjavíkur sáu sér fleiri færi á að opna verslanir á Laugaveginum og þá um leið skapaðist rými til að fjölga veitingastöðum í götunni. En fjölgun veitingastaðanna hefur þó aðallega orðið í hliðargötum við Laugaveg, í Grjótaþorpinu, við Hlemm, á Hafnarbakkanum og alla leið út á Granda.„Í rauninni hefur miðbærinn stækkað mjög mikið undanfarin ár og í framtíðinni mun þetta teygja sig alla leið upp á Suðurlandsbrautina,“ segir Sigurborg.

Miðborgin í örum vexti
Sigurborg bendir á að sé rýnt í nýjustu tölur, sem teknar voru saman í vikunni, um fjölda veitingastaða og verslana í miðborginni þá kemur í ljós að 59 verslanir og veitingastaðir hafa opnað þar á síðustu átján mánuðum. Þar af eru sex sem hafa fært sig um set í miðbænum.„Það er óhætt að segja að það eru miklu fleiri staðir að opna en loka og miðborgin hefur aldrei verið blómlegri en akkúrat núna,“ segir Sigurborg.
Hún segir miðborgina það svæði í Reykjavík sem sé í mestri sókn. Þetta sé hluti af alþjóðlegri þróun þar sem fólk sækir minna í stórar verslunarmiðstöðvar en beinir sjónum sínum frekar að miðbæjum þar sem það sæki í mannlíf og matarmenningu.