Körfubolti

Jón Axel með stórleik þegar Curry fylgdist með

Smári Jökull Jónsson skrifar
Grindvíkingurinn Jón Axel Guðmundsson var frábær í leiknum nótt
Grindvíkingurinn Jón Axel Guðmundsson var frábær í leiknum nótt
Jón Axel Guðmundsson átti frábæran leik fyrir Davidson-háskólann þegar liðið lagði Saint Joseph´s að velli 80-72. Stórstjarnan Steph Curry fylgdist með af hliðarlínunni en hann lék með Davidson-skólanum á árum áður.

Jón Axel skoraði 21 stig, tók sex fráköst og gaf sjö stoðsendingar í mikilvægum sigri auk þess sem hann stal mikilvægum bolta undir lok leiksins.

Saint Joseph´s menn voru 7 stigum yfir í leikhléi en í síðari hálfleiknum skelltu liðsmenn Davidson í lás í vörninni og náðu 13-4 áhlaupi þar sem Jón Axel setti niður tvö þriggja stiga skot.

Steph Curry var líflegur á hliðarlínunni og fagnaði körfum sinna manna vel. Jón Axel var ánægður með að stórstjarnan hafi mætt til að fylgjast með gamla skólanum sínum.

„Að sjá hann fagna brjálæðislega eins og allir aðrir á hliðarlínunni sýnir hversu miklu máli hann skiptir fyrir skólann,“ sagði Jón Axel í viðtali við Charlotte Observer eftir leikinn en Curry fagnaði innilega með stuðningsmönnum eftir leik eins og sjá má hér fyrir neðan.

Davidson eru efstir í sinni deild í háskólaboltanum en Jón Axel hefur verið frábær með liðinu í vetur en hann er á sínu þriðja ári í skólanum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×