Breski söngvarinn Ed Sheeran, sem væntanlegur er til landsins í ágústmánuði þar sem hann mun leika á tvennum tónleikum á Laugardalsvelli hefur nú nýlokið við tveggja tónleika syrpu í Helsinki, höfuðborg Finnlands.
Líkt og raunin var hér á landi átti Sheeran í fyrstu eingöngu að troða upp í eitt skipti en eftir að þeir 60.000 miðar sem voru í boði seldust upp á örskotsstundu var ákveðið að bæta við tónleikum.
Tónleikarnir fóru fram utandyra á Malmi flugvellinum í Helsinki. 108 þúsund manns flykktust á tónleikana tvo og var því slegið áhorfendamet en áður höfðu 104 þúsund manns séð U2 spila á Ólympíuleikvanginum í Helsinki árið 2010.
Fleiri sóttu tónleikana heldur en sóttu vinsælustu tónlistarhátíð Finnlands, Ruisrock, í ár en þar voru um 105 þúsund gestir.
Sheeran hefur auk þess slegið áhorfendamet í Suður-Afríku á þessu tónleikaferðalagi sínu sem er það tónleikaferðalag sem hefur skilað mestum hagnaði á síðustu 30 árum.

