Körfubolti

Jón: Langar að spila meira

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Jón Arnór fagnaði vel og innilega í leikslok
Jón Arnór fagnaði vel og innilega í leikslok vísir/daníel
Jón Arnór Stefánsson langar að spila körfubolta áfram eftir að hafa hjálpað KR til sjötta Íslandsmeistaratitilsins í röð með sigri á ÍR í oddaleik í DHL höllinni í kvöld.

KR vann leikinn 98-70 og seríuna því 3-2 og er Íslandsmeistari. Hvað fannst Jóni hafa skilað sigrinum?

„Reynsla. Við höfum verið hérna áður, okkur leið vel og það eru mikil gæði í þessu liði,“ sagði Jón í leikslok.

Hinir fjórir leikirnir í seríunni enduðu nokkuð jafnir en það var engin spurning hvernig þessi færi.

„Við erum betra lið en ÍR. Við sýndum það ekki í seríunni. Við vorum óheppnir með fyrsta og þriðja leikinn, unnum útileikina nokkuð sannfærandi og vorum svo mjög sannfærandi í dag. Ég held það hefði ekki neitt getað stoppað okkur í dag.“

KR lenti í fimmta sæti í deildinni og á leið sinni í úrslitin lagði KR liðin sem lentu í fjórða og sjötta sæti. Í úrslitum mættu þeir liðinu sem lentu í sjöunda sæti. Einhverjir gætu gagnrýnt KR-inga fyrir að hafa farið auðvelda leið að titlinum en Jón gaf ekki mikið fyrir það.

„Það er bara fáránleg fullyrðing. Þú ferð ekki auðvelda leið að neinum titli, við þurftum að hafa fyrir þessu.“

„Við bara kláruðum okkar, við unnum vinnuna okkar, sem aðrir gerðu ekki. Munurinn er þar.“

Jón Arnór verður 37 ára gamall á þessu ári. Var þetta síðasta tímabil hans?

„Ég veit það ekki. Það bara kemur í ljós. Það er rosalega erfitt að kveðja þennan leik. Þetta er ekki eitthvað sem maður á að draga á langinn en mig langar að spila meira,“ sagði Jón Arnór Stefánsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×