Fjórar framlengingar þurfti til þess að ná fram úrslitum í leiknum og er það jöfnun á lengsta leik í sögunni í úrslitakeppni NBA deildarinnar. Aðeins einu sinni áður hefur þurft að fjórframlengja, það var í 1953 í leik Boston Celtics og Syracuse Nationals.
Seth Curry tryggði Portland sigurinn af vítalínunni á síðustu sekúndum fjórðu framlengingarinnar en leiknum lauk með 140-137 sigri Trail Blazers.
CJ McCollum skoraði 41 stig fyrir Portland og Damian Lillard 28.
Nikola Jokic náði í tvöfalda þrennu, hans þriðja í úrslitakeppninni, með 33 stig, 18 fráköst og 14 stoðsendingar í liði Denver. Jokic gat jafnað leikinn af vítalínunni með 5,6 sekúndur eftir, en hann hitti aðeins úr öðru vítaskoti sínu. Curry fór svo á punktinn fyrir Portland og tryggði sigurinn.
Staðan í einvíginu er nú 2-1 fyrir Portland.
Það var minni dramatík í Boston þar sem gestirnir í Milwaukee Bucks unnu 123-116 sigur og eru komnir í 2-1 í einvíginu.
Giannis Antetokounmpo fór fyrir liði Bucks með 32 stig og 13 fráköst, George Hill bætti við 21 stigi og Khris MIddleton 20.
Boston gerði mikið í því að brjóta á Grikkjanum en hann skoraði 16 stig af vítalínunni og átti aðeins 13 skottilraunir í opnum leik.
Heimamenn voru stigi yfir í hálfleik en Milwaukee kom sterkara út í seinni hálfleikinn og varð munurinn mest 17 stig í síðasta leikhlutanum.