Viðskipti innlent

Ólöf Hildur til Advania Data Centers

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ólöf Hildur Pálsdóttir
Ólöf Hildur Pálsdóttir Advania
Ólöf Hildur Pálsdóttir hefur gengið til liðs við Advania Data Centers og tekur við framkvæmdastjórn fjármálasviðs félagsins.

Í tilkynningu Advania um ráðningu Ólafar er ferill hennar reifaður. Þar segir meðal annars að Ólöf hafi undanfarið starfað sem sjálfstæður fjármálaráðgjafi og setið í stjórnum félaga, m.a. Regins hf. Þar á undan hafi Ólöf starfað í um 20 ár hjá Arion banka og forvera hans m.a. sem stjórnandi á fyrirtækjasviði. 

„Almennt hefur starfsferill hennar snúist um ákvarðanir um fjárfestingar og lánveitingar, en jafnframt greiningarvinnu og samningagerð. Ólöf hefur jafnframt reynslu af straumlínustjórnun og sat í ýmsum innri ákvörðunarnefnum innan bankans,“ eins og segir í tilkynningunni en Ólöf er menntaður viðskiptafræðingur, Cand.Oecon af fjármálasviði við Háskóla Íslands þar sem hún lauk námi árið 2000.

Advania Data Centers á og rekur tvö gagnaver; THOR DC, staðsett á höfuðborgarsvæðinu, og MJOLNIR DC sem hóf starfsemi árið 2013. Er nú svo komið að það síðarnefnda telst stærsta gagnaver landsins.

Haft er eftir Eyjólfi Magnúsi Kristinssyni, forstjóra Advania Data Centers, í tilkynningunni að mikill uppgangur hafi verið í gagnaversrekstri félagsins. Því sé „ótrúlega ánægjulegt að fá jafn reynslumikinn aðila og Ólöfu til liðs við okkur til að fást við þau spennandi verkefni sem framundan eru” segir Eyjólfur Magnús .






Fleiri fréttir

Sjá meira


×