Rúmlega 270 starfsmenn indónesísku þing- og forsetakosninganna hafa látist úr ofreynslutengdum sjúkdómum. Þetta hafði breska ríkisútvarpið eftir Arief Priyo Susanto, talsmanni landskjörstjórnar, í gær. Einnig hafa 1.878 þurft að hverfa frá störfum vegna veikinda.
Kosningarnar voru fjölmennar. Alls greiddu um 80 prósent 193 milljóna atkvæðabærra Indónesíumanna atkvæði í kosningunum á um 800.000 kjörstöðum. Þær sjö milljónir sem hafa komið að talningu atkvæða frá kosningunum 17. apríl hafa, samkvæmt BBC, þurft að vinna nótt sem nýtan dag í miklum hita. Atkvæði eru handtalin og hafa aðstæðurnar reynst of erfiðar fyrir þennan fjölda fólks.
Stór hluti þeirra sem telja atkvæði gerir það í sjálfboðaliðastarfi. Ólíkt fastráðnum starfsmönnum þurfa sjálfboðaliðar ekki að gangast undir læknisskoðun.
Kjörstjórn ætlar að greiða fjölskyldum hinna látnu 36 milljónir rúpía í skaðabætur, andvirði um 300.000 króna. Sú upphæð samsvarar um það við tólf mánuðum á lágmarkslaunum.
Opinberar niðurstöður forsetakosninga liggja ekki enn fyrir. Kannanir benda til þess að Joko Widodo hafi náð endurkjöri. Andstæðingurinn, Prabowo Subianto, telur að niðurstöður þeirra kannana séu alrangar.
