„Það gekk allt samkvæmt áætlun í dómararennslinu. Við stigum upp á svið og gerðum það sem var á dagskrá. Svo það gekk vel,“ segir Klemens Hannigan.
„Við erum mjög yfirveguð fyrir kvöldinu og það mætti þakka hugleiðslutímanum sem við tökum fyrir hverja æfingu,“ segir Klemens og þá bætir Matthías við að hugleiðslutíminn er aldrei minni en 90 mínútur.
Þeir segja að það sé ekki ógnvekjandi að koma fram fyrir framan þrjú hundruð milljónir áhorfenda.

Hún var tilfinningaþrungin en á sama tíma afslöppuð kveðjustund Hatara og íslenska hópsins sem yfirgaf Dan Panorama hótelið í faðmi fjölskyldu sinnar um klukkan hálf tvö að staðartíma í dag.
Foreldrar, makar og aðrir ættingjar voru mættir á svæðið og fylgdu hópnum alla leið inn í rútu. Þeir vilja ekki tjá sig hvort það komi fram óvænt útspil á sviðinu.

„Svarið gæti verið túlkað með pólitískum hætti og við getum ekki svarað þessu, þótt spurningin sé góð.“
„Við myndum gjarnan vilja svara þér en okkur finnst þetta of heit spurning,“ segir Klemens.
Það er heldur betur komið keppniskap í hópinn og ætla drengirnir sér einfaldlega að vinna Eurovision í ár.
„Við ætlum að vinna Eurovision 2019. Slík er áætlunin en við blöndum okkar persónulegum skoðunum ekki inn í málið.“