Hlíðamálið varðar fréttaflutning af máli þar sem tveir menn voru sakaðir um nauðgun í heimahúsi í Hlíðunum í Reykjavík í nóvember árið 2015.
Tryggvi birti fjögur af ummælunum á Facebook 9. nóvember árið 2015:
- Hér eru helvítis ógeðin sem voru að nauðga og misþyrma með sérútbúna íbúð í Hlíðunum.
- Þessi viðrini voru ekki nafngreind eða myndbirt í blöðunum eins og aðrir með réttarstöðu grunaðra og ekki látnir sæta gæsluvarðhaldi á meðan á rannsókn stendur samt stafar samfélaginu meiri ógn af þessum gerpum en þeim sem eru með nokkrar plöntur heima hjá sér.
- Endilega deilið svo stelpur geti varað sig á þessum stórhættulegu einstaklingum.
- Ef þið sjáið þessa fávita endilega hifive a þá í smettið ... Menn sem gera svona eru ekki að byrja sinn nauðgaraofbeldisferil.
- ... Ef það tekst að hindra þó það væri ekki nema eina nauðgun í viðbót af hálfu þessara manna þá er markmiðinu náð.
- Magnús ég hef sögur frá fyrstu hendi frá fleiri en þessum stelpum sem þeir náðu að nauðga og misþyrma og á meðan þeir ganga lausir eru þeir hættulegir.
Hann krafðist sýknu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og reisti kröfu sína á grundvallarreglunni um tjáningarfrelsi sem sé lögvarin í stjórnarskránni og mannréttindarsáttmála Evrópu.
Taldi hann til vara að fullyrðingar um sekt mannanna hafi átt uppruna sinn hjá öðrum en honum sjálfum og hann hafi verið í góðri trú um sannleiksgildi þeirra fullyrðinga.
Forsaga málsins er sú að Fréttablaðið greindi frá rannsókn lögreglu á nauðgun í íbúð í Hlíðunum. Vakti sérstaklega athygli að íbúðin var sögð útbúin til nauðgana. Fréttirnar vöktu mikla reiði og leiddu meðal annars til mótmæla fyrir utan lögreglustöðina á Hverfisgötu.
Öllum kærum á hendur mönnunum tveimur var vísað frá.
Í júlí í fyrra staðfesti Hæstiréttur dóm Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem 365 miðlar ehf. og fjórir fréttamenn voru dæmdir til að greiða mönnunum tveimur skaðabætur vegna umfjöllunarinnar og ummæli dæmd dauð og ómerk.