Innlent

Vilja liðka fyrir kjaraviðræðum og leggja fram „kjarapakka“

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, segir að Reykjavíkurborg geti vel liðkað fyrir yfirstandandi kjaraviðræðum.
Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, segir að Reykjavíkurborg geti vel liðkað fyrir yfirstandandi kjaraviðræðum. Vísir/vilhelm
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins kynntu á blaðamannafundi í ráðhúsinu í morgun tillögu sem Reykjavíkurborg gæti samþykkt sem innlegg í yfirstandandi kjaraviðræður.

Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, segir í samtali við fréttastofu að núna væri samið um kjör við mjög óhefðbundnar aðstæður og því hafi Sjálfstæðismenn fundið sig knúna til að leggja sitt af mörkum til að liðka fyrir viðræðum. Staðan í húsnæðismálum væri alvarleg og þarna gæti Reykjavíkurborg stigið inn í og ekki síst í ljósi þess að óánægja hefði verið með innlegg ríkisstjórnarinnar til kjaramála.

Tillaga Sjálfstæðisflokksins er svokallaður „kjarapakki“ sem er í fjórum liðum. Tillagan verður lögð fram á borgarstjórnarfundi á morgun.

Sjálfstæðisflokkurinn gerir grein fyrir áhrifum þess að lækka útsvar um 0,52%Sjálfstæðisflokkurinn
Í fyrsta lagi vilja Sjálfstæðismenn að álagningarhlutfall útsvars fyrir árið 2019 lækki og verði 14,00% í staðinn fyrir 14,52% eins og staðan er núna. Lagt er til að aðgerðin verði fjármögnuð með aðhaldi og útboðum á öllum sviðum borgarinnar.

Í öðru lagi er farið fram á að rekstrargjöld heimilanna lækki um 36 þúsund krónur á heimili í Reykjavíkurborg að jafnaði á ársgrundvelli. Það verði gert með lækkun arðgreiðsluáforma Orkuveitu Reykjavíkur.

Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka rekstrargjöld heimilanna um 32.000 kr.Sjálfstæðisflokkurinn
Sjálfstæðisflokkurinn vill auka framboð á hagstæðum byggingarlóðum og vilja fulltrúarnir skipuleggja Keldnasvæðið án skilyrða um aðrar fjárveitingar ríkisins. „Þannig er hægt að byggja á hagstæðum stað í Reykjavík í staðinn fyrir að leita á Selfoss eða Reykjanesbæ eins og hefur gerst,“ segir Eyþór.

Þá vilja borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lækka byggingarréttargjöld sem hafi veruleg áhrif á húsnæðiskostnað hvort sem viðkomandi greiðir af lánum eða leigir. „Því er lagt til að borgarstjórn samþykki að stilla byggingarréttargjöldum í borgarlandinu í hóf með því að tryggja framboð fjölbreyttra lóða“.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×