Innlent

Ítrekar að ekki skuli halda á ísilagðan Skutulsfjörð

Andri Eysteinsson skrifar
Lögreglan þurfti að hafa afskipti af unglingum á leik á hafísnum í Pollinum í Skutulsfirði.
Lögreglan þurfti að hafa afskipti af unglingum á leik á hafísnum í Pollinum í Skutulsfirði. Lögreglan á Vestfjörðum
Mikill kuldi hefur verið á Vestfjörðum undanfarið, af þeim sökum er Pollurinn í Skutulsfirði, við Ísafjarðarhöfn, ísilagður.

Að sögn Lögreglunnar á Vestfjörðum hefur borið á því að börn og unglingar séu við leik á ísnum. Slíkt athæfi er hættulegt og vill Lögreglan á Vestfjörðum koma því á framfæri. Að sögn lögreglu hefur ekkert slys orðið á ísnum en íslagið er þunnt og því alltaf hættulegt að halda út.

Að sögn lögreglunnar gerist það reglulega að frysti í Pollinum, þó sé það þó ekki þannig að Pollurinn sé ísilagður vikum saman eins og gerðist fyrr á tímum.

Í samtali við Vísi sagðist lögreglan ekki þekkja til þess hvort svipuð staða væri víðar á Vestfjörðum og sagði sérstakar aðstæður geta myndast í Pollinum. Landfyllingin í Skutulsfirði, hvar höfnin stendur, valdi því að hafið er kyrrt í Pollinum og þá getur ísinn myndast. Að sögn Lögreglu liggur ísinn frá höfninni alveg niður í botn Skutulsfjarðar.

Lögregla birti á Facebook síðu sinni mynd af afskiptum hennar af unglingum á ísnum fyrr í dag, með myndinni birti lögregla ráð til þeirra sem falla ofan í vatn af ísbreiðu.

Sjá má færsluna hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×