Nauðgað af kærasta ömmu sinnar
Stúlkan, sem hefur verið kölluð Lucía í umfjöllun um málið, varð ólétt eftir sextíu og fimm ára kærasta ömmu sinnar. Henni var komið í umsjá ömmunnar árið 2015 eftir að eldri systur hennar tvær voru misnotaðar af kærasta móður þeirra.Yfirvöld hunsuðu ítrekaðar þungunarrofsbeiðnir Lucíu, móður hennar og kvenréttindasamtaka í Argentínu, að því er fram kemur í frétt breska dagblaðsins The Guardian. Afskiptaleysi yfirvalda hefur verið sagt grimmileg og lýsandi fyrir stefnu stjórnvalda í Argentínu, sem kúgi stúlkur til að eignast börn sem þær vilji ekki.
Barninu ekki hugað líf
Þungunarrof er bæði ólöglegt og refsivert í Argentínu, nema þegar þungun verður í kjölfar nauðgunar eða ógnar lífi móðurinnar. Læknir fullyrti fyrir dómi að hið síðarnefnda ætti við í tilfelli Lucíu en embættismaður í borginni Tucumán, þar sem Lucía býr, hélt því hins vegar fram að stúlkan vildi ekki fara í þungunarrof.Yfirvöld höfðu ekkert beitt sér í málinu þegar Lucía var gengin 23 vikur með barnið en þá var loks ákveðið að taka það með keisaraskurði. Ákvörðunin var tekin eftir tilskipun frá dómara, sem fyrirskipaði að grípa þyrfti strax til aðgerða. Barninu er ekki hugað líf.
Hafði tvisvar reynt að fremja sjálfsvíg
Haft er eftir Ceciliu Ousset, lækninum sem framkvæmdi keisaraskurðinn, að aðgerðin hafi bjargað lífi stúlkunnar. Hún hafi jafnframt sætt pyntingum innan heilbrigðiskerfisins í heilan mánuð vegna aðgerðaleysis stjórnvalda.Í frétt Guardian er einnig vitnað í samtal Lucíu við sálfræðing sem tók á móti henni þegar hún var lögð inn á spítala í lok janúar. Þá var vika liðin síðan Lucía uppgötvaði að hún væri ólétt en hún var loks lögð inn á sjúkrahús eftir tvær sjálfsvígstilraunir.
„Ég vil að þú fjarlægir það sem gamli maðurinn setti inn í mig,“ er Lucía sögð hafa sagt við sálfræðinginn við innlögnina.