Íslenska körfuboltalandsliðið karlamegin stendur í stað í 50. sæti styrkleikalista FIBA sem var uppfærður eftir síðasta landsleikjahlé um helgina eftir tvo leiki Íslands í undankeppni EuroBasket.
Íslenska liðið vann geysiöruggan 27 stiga sigur á Portúgal í fyrri leiknum í þessu landsleikjahléi en tapaði seinni leiknum gegn Belgíu með sambærilegum mun. Af Evrópuþjóðunum er Ísland í 28. sæti, einu sæti fyrir ofan Svíþjóð.
Andstæðingar Íslands á næsta stigi undankeppninnar fyrir EuroBasket, Portúgal og Sviss, eru fyrir neðan Ísland á styrkleikalistanum. Portúgal sem Ísland mætti á dögunum er í 62. sæti og Sviss í 65. sæti.
