Þeir Aron Kristinn Jónasson og Brynjar Barkarson mynda saman sveitina ClubDub en hún sló rækilega í gegn síðasta sumar. Þeir voru gestir í Einkalífinu á fimmtudaginn og kom þar í ljós að Brynjar fór í nefaðgerð á síðasta ári og sér sannarlega ekki eftir þeirri ákvörðun.
„Mig langaði að láta nefið líta öðruvísi út,“ segir Brynjar aðspurður af hverju hann ákvað að fara í lýtaaðgerð.
„Eitthvað hlýtur að hafa verið að angra mig fyrst ég fer í þessa aðgerð. Það var allavega að angra mig nóg til að fara í þessa aðgerð. Mér fannst þetta ekki vera stórmál og ég held í framtíðinni eigi fólk eftir að slaka aðeins á hvað þetta varðar.“
Brynjar segir að fólk feli oftast fyrir öðrum að það hafi farið í fegrunaraðgerð. Hann segir að fólk eigi ekki að hugsa hvað öðrum finnist og fara bara eftir eigin sannfæringu.
„Ef þetta er eitthvað sem þig langar að gera, gerðu það bara.“
Í þættinum ræða þeir einnig um tónlistina, frægðina, þegar þeir voru reknir úr Versló, samstarfið og vináttuna og framtíðina.
Hér að neðan má sjá þriðja þáttinn af Einkalífinu en þátturinn vikulegi er í loftinu á fimmtudögum á Vísi og Stöð 2 Maraþon.