Embætti ríkissaksóknara hefur áfrýjað CLN-málinu svokallaða til Landsréttar. Magnús Guðmundsson, fyrrverandi bankastjóri Kaupþings í Lúxemborg, Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings og Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri bankans, voru sýknaðir í héraðsdómi Reykjavíkur í byrjun júlí.
Kjarninn greinir frá þessu og hefur eftir Helga Magnúsi Gunnarssyni, vararíkissaksóknara.
Þremenningarnir voru ákærðir fyrir umboðssvik vegna lána sem hljóðuðu upp á 508 milljónir evra frá því í ágúst til október 2008.
Lánin fóru til tveggja félaga sem keyptu lánshæfistengd skuldabréf af Deutsche Bank sem tengd voru skuldatryggingaálagi Kaupþings. Taldi ákæruvaldið markmiðið hafa verið að lækka skuldatryggingaálagið.
Málið hefur velkst um í dómskerfinu í mörg ár en héraðsdómur kvað fyrst upp dóm í málinu í janúar 2016. Hreiðar, Sigurður og Magnús voru þá allir sýknaðir en ákæruvaldið áfrýjaði málinu til Hæstaréttar.
Áður en málið var tekið fyrir hjá þeim dómstól komu fram nýjar upplýsingar varðandi það að Deutsche Bank hefði greitt þrotabúi Kaupþings stóran hlut upphæðarinnar sem lánuð var eða alls 425 milljónir evra.
Hæstiréttur ómerkti dóminn og málsmeðferðina í héraði vegna þessara nýju upplýsinga þar sem ástæður greiðslunnar lágu ekki fyrir. Taldi Hæstiréttur því að rannsaka þyrfti þennan þátt málsins betur.
Málið fór því aftur heim í hérað og tók ákæruvaldið til við að rannsaka málið að nýju. Þegar málið var svo flutt aftur fyrir héraðsdómi vísaði dómurinn málinu frá þar sem hann taldi ákæruvaldið ekki hafa rannsakað sem skyldi þau atriði sem Hæstiréttur hafði sagt að þyrfti að rannsaka betur.
Ákæruvaldið kærði frávísun héraðsdóms til Landsréttar sem úrskurðaði að héraðsdómi bæri að taka málið til efnislegrar meðferðar, meðal annars á grundvelli þess að ákæruvaldið taldi hvorki að samkomulagið um greiðsluna frá Deutsche Bank hefði þýðingu fyrir grundvöll málsins né við mat á því hvort skilyrði umboðssvika væru uppfyllt.