Fjölskylda Ingibjargar Elísabetar Garðarsdóttur hefur margar jólahefðir en mamma hennar var fædd á aðfangadag. Ingibjörg hefur haldið í margar þær hefðir sem hún ólst upp við og bjó til uppskriftabók með uppskriftum mömmu sinnar sem hún gaf fjölskyldunni.
Mamma var tvíburi og fæddist 24. desember 1937. Hún var tekin með keisara, mér er sagt að þetta hafi verið fyrsti keisarinn á Landspítalanum en ég ætla ekki að fullyrða það. Amma fékk að velja hvort keisarinn yrði gerður á aðfangadag eða gamlársdag. Hún vildi bara að það yrði gert sem fyrst, þessvegna valdi hún aðfangadag," segir Ingibjörg.
Hún segir frá því að frænka hennar hafi eitt sinn tekið viðtal við ömmu hennar. „Þar segir hún frá því að uppáhaldsminningin hennar hafi verið þegar tvíburarnir voru nýfæddir. Það var jólanótt og búið var að setja jólatré inn í stofuna til þeirra með lifandi kertum. Tréð var á borði á milli stelpnanna og hjúkrunarfræðingur vakti yfir þeim og trénu svo það myndi ekki kvikna í. „Amma sagði að þessi jólanótt væri sú fallegasta sem hún hefði upplifað.“
Unni, mömmu Ingibjargar, þótti oft leiðinlegt sem barn að fá ekki alvöru afmælisdag og gjafir en hún og tvíburasystir hennar fengu oft jólakjól og skó í afmælisgjöf. „Þar sem mamma átti ekki beint afmælisdag varð Þorláksmessukvöld að hennar afmæli. Það skapaðist sú hefð að fjölskyldan kom saman á Þorláksmessukvöld og skálaði í freyðivíni á miðnætti fyrir afmælinu hennar. Ég held enn þá í þessa hefð og skála fyrir mömmu á miðnætti á Þorláksmessu.“
Aðventukaffinu heima útvarpað
Ýmsar jólahefðir urðu til þegar foreldrar Ingibjargar bjuggu úti í Þýskalandi á námsárunum. „Í Þýskalandi er gert mun meira úr aðventunni en hér. Þegar þau komu aftur til Íslands voru þau alltaf með að ventukaffi á aðventusunnudögunum. Við vorum fjögur systkinin og áttum öll okkar aðventukerti. Mamma bjó til súkkulaði og við borðuðum smákökur, pabbi las upp jólasögur og svo var kveikt á kertinu. Við sátum öll við borðið og oft voru gestir. Þetta þótti mjög óvenjulegt, einhvern tímann á 8. áratugnum, áður en ég fæddist var þetta tekið upp og sent út í útvarpinu.
Þar sem ég er langyngst af systkinum mínum, 9 árum yngri en bróðir minn og 19 árum yngri en elsta systir mín, þá bjó ég lengi ein með foreldrum mínum. Ég eldaði mikið með mömmu og kunni allar uppskriftirnar hennar. Fyrstu jólin eftir að hún dó gaf ég öllum í fjölskyldunni uppskriftabók með uppskriftunum hennar,“ segir Ingibjörg.
Uppskriftin að rækjukokteilnum sem Ingibjörg deilir með lesendum er einmitt úr þessari uppskriftabók. En rækjukokteillinn er alltaf borðaður á aðfangadagskvöld. Ingibjörg hefur einnig búið til vegan útgáfu af uppskriftinni. „Ég hélt ráðstefnu nýlega með vinkonu minni sem hét Vegan heilsa. Ástæðan fyrir því var að við vorum saman í veikindaleyfi. Hún vegna krabbameins og ég vegna kulnunar í starfi auk þess sem ég er með endómetríósu, pcos og vanvirkan skjaldkirtil.
Okkur fannst ekki talað nógu mikið um áhrif mataræðis á heilsu. Læknar voru alltaf að segja okkur að borða hollt en ekki hvað við ættum að borða. Við fengum þess vegna erlenda sérfræðinga, tvo lækna og næringarfræðing, til að koma og tala um vegan mataræði en ég fylgi því að megninu til í dag. Ég finn bara að mér líður betur ef ég borða þannig.“
Jóla vegan rækjukokteill
fyrir 4
2 mangó
1 lárpera (avocado)
2 vorlaukar
2 palma granatepli
1 gul paprika
1 rauð paprika
½ rauður chili
½ agúrka
4 lime
1 búnt kóríander
Hreinsið öll fræ úr agúrkunni og skerið allt grænmeti og ávexti í smáa ferninga. Skerið chili í smáa bita, grófskerið kóríander og takið fræ úr palma granateplunum. Setjið allt saman í skál, kreistið safann úr þremur lime yfir og blandið saman.
Sósa
4 msk. vegan majónes
1 dós Oatly sýrður rjómi
1 dl tómatsósa
Karrý eftir smekk
Blandið öllum hráefnum í sósu saman í skál og hrærið vel saman.
Fallegt er að setja salatið í falleg glös eða skálar, setja smá sósu yfir og bera fram með einum báti af lime.
Jóla rækjukokteill
fyrir 4
Stórar rækjur að vild
1 sítróna
Sósa
4 msk. majónes
1 peli rjómi
1 dl tómatsósa
Karrý eftir smekk
Þeytið rjómann og blandið öllum hráefnum saman við í skál og hrærið varlega saman svo loftið fari ekki úr rjómanum. Fallegt er að setja salatið í falleg glös eða skálar, setja smá sósu yfir og bera fram með einum báti af sítrónu.
Jól