Nýi Herjólfur hefur verið í smíðum hjá pólsku skipasmíðastöðinni Crist S.A. en upphaflega átti að afhenda ferjuna í fyrra. Ferjan er nú talin svo gott sem tilbúin en þá strandar á kröfu stöðvarinnar um 1,2 milljarða króna í aukagreiðslu sem nemur um þriðjungi af heildarverði hennar.
Sigurður Ingi sagði kröfu skipasmíðastöðvarinnar tilhæfulausa í viðtali í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Vegagerðin hafi gert sérstaka samninga um öll viðbótarverk sem stöðin hafi unnið vegna ferjunnar.
Því telji hann eðlilegt að Vegagerðin hafi leitað til danskrar sérhæfðrar lögfræðistofu. Lögmenn beggja aðila ræði nú saman. Verði ágreiningur áfram til staðar sé hægt að fara með málið fyrir gerðardóm í Reykjavík. Sagði Sigurður Ingi að það gæti orðið niðurstaðan.
„Þessi reikningur verður ekki greiddur, ekki nema við séum dæmd til þess því hann er tilhæfulaus að okkar mati,“ sagði samgönguráðherrann.
Ekki sé þó ætlunin að bíða eftir niðurstöðu gerðardóms áður en ferjan verður afhent. Sigurður Ingi sagði að það væri hluti af samningum nú að ganga frá því að skipið verði afhent og að skipasmíðastöðin fái lögbundna lokagreiðslu sína.
Sagðist ráðherrann vonast til þess að ferjan fáist til Íslands á næstu vikum og fyrir sumarið.
„Það er auðvitað háð því hvort að það séu eðlilegir viðskiptahættir sem eru stundaðir þarna,“ sagði hann.