Körfubolti

KR-ingar fyrsta liðið inn í undanúrslitin tíunda árið í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Arnór Stefánsson skoraði mikilvægar körfur í leikjunum á móti Keflavík.
Jón Arnór Stefánsson skoraði mikilvægar körfur í leikjunum á móti Keflavík. Vísir/Bára
KR sópaði Keflavík í sumarfrí á Sunnubrautinni í gærkvöldi og er því komið í undanúrslit úrslitakeppni Domino´s deildar karla ellefta árið í röð.

Í hinum þremur einvígunum er staðan 2-1 (fyrir Njarðvík, Tindastól og Stjörnunni) og í þeim einvígum fer því fjórði leikurinn fram ólíkt einvígi Keflavíkur og KR.

ÍR og Grindavík verða bæði á heimavelli í kvöld og reyna þar að tryggja sér oddaleik. Leikur Grindavíkur og Stjörnunnar hefst klukkan 18.30 (beint á Stöð 2 Sport) en leikur ÍR og Njarðvíkur hefst klukkan 20.15 (beint á Stöð 2 Sport).

Það sem gerir þetta afrek KR-liðsins enn merkilegra er að KR-ingar hafa nú verið fyrsta liðið inn í undanúrslitin tíu ár í röð.

KR hefur ekki tapað leik í átta liða úrslitum síðan vorið 2008 og hafa því frá þeim tíma klárað átta liða úrslitin eins og fljótt og hægt var.

Grindvíkingar komust á sama tíma og þeir í undanúrslitin vorið 2012 en hin árin hefur engu liði tekist að klára átta liða úrslitin jafnfljótt og Vesturbæingar.

Njarðvíkingar áttu möguleika að enda þessa hrinu KR-liðsins með sigri á ÍR á heimavelli á miðvikudagskvöldið (og vinna 3-0) en Breiðhyltingum tókst að tryggja sér fjórða leikinn í Seljaskóla og fer hann fram í kvöld.

Það gaf KR-ingum enn eitt tækifærið á því að vera fyrstir inn í undanúrslit og það nýttu þeir með sannfærandi 21 stigs sigri á Keflvíkingum í gærkvöldi.

Hér fyrir neðan má sjá hvaða lið hefur verið fyrst inn í undanúrslitin frá 2008. Mörg þeirra hafa orðið Íslandsmeistarar eins og KR-ingar undanfarin fimm ár.

Fyrsta liðið inn í undanúrslit úrslitakeppni karla síðustu ár:

2019 - KR (???)

2018 - KR (Íslandsmeistari)

2017 - KR (Íslandsmeistari)

2016 - KR (Íslandsmeistari)

2015 - KR (Íslandsmeistari)

2014 - KR (Íslandsmeistari)

2013 - KR (Undanúrslit)

2012 - KR (Undanúrslit) og Grindavík (Íslandsmeistari)

2011 - KR (Íslandsmeistari)

2010 - KR (Undanúrslit)

2009 - Grindavík (2. sæti)

2008 - Keflavík (Íslandsmeistari)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×