Körfubolti

Ingi Þór: Fáránlegt hvað við vorum daufir

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ingi var ekki sáttur með hugarfar sinna manna í kvöld.
Ingi var ekki sáttur með hugarfar sinna manna í kvöld. vísir/bára
Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari KR, var ómyrkur í máli eftir tap Íslandsmeistaranna fyrir Njarðvík í kvöld, 75-78. Þetta var annað tap KR-inga í röð á heimavelli.

„Það vantaði að mæta almennilega til leiks. Það var fáránlegt hvað við vorum daufir,“ sagði Ingi í samtali við Vísi eftir leik.

KR lenti mest 15 stigum undir í 3. leikhluta en kom svo með sterkt áhlaup í upphafi þess fjórða. En svo fór vindurinn aftur úr KR-blöðrunni.

„Við náðum frábærum kafla í 4. leikhluta en ég er ósáttur við að við höfum ekki unnið betur úr þeirri stöðu,“ sagði Ingi.

„Við töpuðum boltanum níu sinnum í fyrri hálfleik, þar af sjö sinnum í 1. leikhluta. Við töluðum um að gera betur í þeim efnum en gerðum það ekki og töpuðum tólf boltum í seinni hálfleik. Þessi leikur vannst á sóknarfráköstum og töpuðum boltum. Það er klárt mál.“

Njarðvík var með yfirburði inni í teig í fyrri hálfleik og tók m.a. tólf sóknarfráköst.

„Bakverðirnir þeirra voru með fullt af sóknarfráköstum. Allt liðið frákastaði mjög illa,“ sagði Ingi. Honum fannst vanta upp á baráttuna hjá KR-ingum í kvöld.

„Algjörlega. En svo áttum við feyki góðan kafla. Við breyttum aðeins hvernig við spiluðum,“ sagði Ingi.

„Sóknarleikurinn okkar var svolítið einhæfur og við töpuðum boltanum vegna þess. Þeir gerðu mjög vel og því miður leystum við ekki það sem við ætluðum að gera.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×