Innlent

Lunda­pysju bjargað af syst­kinum í Breið­holti

Berghildur Erla Bernharðsdóttir og Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifa
Stúlka sem hefur fangað allt að þúsund lundapysjur í Vestmannaeyjum fangaði sína fyrstu í Breiðholti í gær. Hún var undrandi að sjá fuglinn í borginni enda afar sjaldgæft að finna lunda þar. Bróðir hennar er hæst ánægður með nýja heimilisvininn þó lyktin af honum sé vond. Þau ætla að sleppa honum á haf út á morgun eins og gert er í Eyjum.

Katrín Sara var á gangi í Breiðholti í gær þegar hún kom auga á fugl sem hún er vön að sjá annars staðar á Íslandi.

„Við bjuggum í Vestmannaeyjum í fimm ár og vorum alltaf á lundapysjuveiðum. Þannig að við erum vön þessu,“ segir Katrín.

Pysjan fannst á vappi um Breiðholtið.stöð 2
Hvað heldurðu að þú hafir náð mörgum í gegnum tíðina?

„Gætu verið alveg þúsund. Mjög mikið allavega,“ svarar Katrín.

Bróðir hennar segir að fuglinn sem hefur fengið heitið Goggi hafi verið frekar daufur í dálkinn í byrjun.

Guðmundur sagði ekki góða lykt af lundapysjunni.Stöð 2


„Hún var svolítið næringarlaus í hádeginu en við erum búin að gefa henni að borða. Hún er komin með smá orku. Við erum búin að gefa henni þorsk og bleyta hana með lýsi,“ segir Guðmundur Þorlákur Bjarni.

Hvernig er lyktin af henni?

„Hún er ekkert rosa sérstök, hún er búin að vera í kassa og skíta endalaust þannig það er ekkert rosa góð lykt af henni.“

Þau segja að Goggi hafi verið fljótur að venjast fjölskyldunni en ætla að sleppa honum á morgun og vona að hann bjargi sér á eigin spýtur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×