Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur skilað inn lokaskýrslu vegna málsins, sem flokkað er sem alvarlegt flugatvik, en um einkaþotu af gerð Cessna 525A var að ræða. Þrír voru um borð.
Flugvélin var að undirbúa sig undir flugtak á flugbraut 19 en á sama tíma var söndunarbíll að sanda flugbraut 13. Í skýrslunni kemur fram að áhöfn vélarinnar hafi ekki gert sér grein að verið væri að sanda hina flugbrautina.

Engu að síður hóf flugmaðurinn flugtak á sama tíma og söndunarbílinn var við það að fara yfir þar sem flugbrautirnar mætast. Bílstjóri bílsins sagðist hafa tekið eftir flugvélinni á síðustu stundu og ekki haft tíma til að bregðast við.
Í skýrslunni kemur fram að alvarleg árekstrarhætta hafi skapast og að flugvélin hafi rétt sloppið yfir söndunarbílinn í flugtakinu, en talið er að minna en einum metra hafi munað á bílnum og flugvélinni þegar minnst var.
Rannsóknarnefndin mælir með því að öll samskipti á milli flugturns og flugvéla fari fram á ensku, þegar áhöfn minnst einnar flugvélar í samskiptum við flugturninn, tali ensku við flugturninn.