Í ágúst 2018 kom út skýrsla þar sem bent var á mikilvægi þess að auka þyrfti aðkomu þyrlna að sjúkraflugi. Niðurstaðan olli mér miklum vonbrigðum og þá sérstaklega mótþrói Landhelgisgæslunnar gegn þeirri frábæru hugmynd að fá sérútbúnar sjúkraþyrlur til landsins, og taka þannig þátt í þróun sem hefur orðið um víða veröld. Að mínu mati er ástæða hennar langvarandi fjársvelti Landhelgisgæslunnar og naumhyggja Ríkisendurskoðunar varðandi möguleika á fjármögnun Gæslunnar áratugi aftur í tímann.
Í umfjölluninni mun ég fyrst útskýra muninn á sjúkraþyrlu (HEMS) og björgunarþyrlu (SAR). Fólk áttar sig yfirleitt ekki á muninum,sem er skiljanlegt þar sem aðeins önnur tegundin er til staðar á Íslandi, þ.e.a.s björgunarþyrla (SAR), sem er frekar einstætt.
Ég líki þessu við að bera saman sjúkrabíl og mikið breyttan björgunarsveitarbíl,sem við öll þekkjum. Að bera þessi tvö tæki saman segir eiginlega alla söguna. Sjúkraþyrlan (HEMS) er eins og sjúkrabíllinn, sem sagt mun nettari og ódýrari en mun betur búin með öllum sjúkrabúnaði um borð til að halda sjúklingum á lífi. Björgunarþyrlan (SAR) er eins og björgunarsveitarbíll vel búin til að takast á við veður og færð og með minni sjúkrabúnað innanborðs til að hámarka pláss, þar sem oft þarf að bjarga mörgum í einu. Því má við bæta að sjúkraþyrlur (HEMS) eru margfalt hljóðlátari en þyrlur Landhelgisgæslunnar, sem vert er að hugleiða þegar nýr þyrlupallur verður settur við nýjan Landsspítala.
Ef sú ákvörðun yrði tekin að hætta að nota sjúkrabíla og einblínt yrði á notkun björgunarsveitarbíla á risastórum dekkjum, vegna þeirrar ófærðar sem oft er á Íslandi, þætti það líklega ekki góð hugmynd hvað viðkemur rekstri og þjónustu. Ef ekki bara galin. Þannig hljóma rök Landhelgisgæslunnar gegn sjúkraþyrlunni (HEMS) í mínum eyru. Landhelgisgæslufólk í nefndinni hefur í raun verið að villa um fyrir nefndar- og ráðamönnum með hræðsluáróðri um að ekki sé hægt að fljúga minni sjúkraþyrlum á Suðurlandi,og er það í 50% tilfella vegna veðurfars og að það þurfi tvo flugmenn. Ég hef flogið þyrlum á Íslandi í nokkur ár og veit að þetta er ekki rétt. Mín reynsla er sú að í útsýnisflugi sé flogið að meðaltali í 80% tilfella á ársgrundvelli, meira á sumrin og minna á veturna. Og þá erum við að tala um útsýnisflug þar sem krafa um gott veður er talsvert mikil, þar sem þetta er jú útsýnisflug. Sjúkraþyrla gæti flogið talsvert meira en útsýnisþyrla. Nútímaleg sjúkraþyrla (HEMS) er að mörgu leyti svipuð gömlu TF-SIF en mun aflmeiri og með betri sjálfstýringu. Sú þyrla bjargaði fjölda fólks og hefur sannað sig svo um munar. Þess vegna á ég erfitt með að skilja afstöðu Landhelgisgæslumanna gegn minni sjúkraþyrlu, vitandi hvað TF-SIF gerði fyrir land og þjóð.
Sjúkraþyrlukerfið (HEMS) er hugsað með afmarkaða landshluta í huga, í nánd við aðalsjúkrahús og flugvelli. Þær þyrftu því ekki að fljúga yfir landið þvert og endilangt eða krossa hálendið til að nálgast sjúklinginn. Þannig stæði sjúkraþyrla (HEMS) en betur að vígi en gamla TF-SIF. Yfir sumartímann gætu þær svo hæglega flogið yfir fjallgarða.
Eitt útilokar ekki annað í þessum efnum
Sjúkraþyrla (HEMS) og björgunarþyrla (SAR) styrkja hvor aðra, alveg eins og sjúkrabíll og björgunarsveitarbíll gera. Ef ég ligg slasaður eða veikur og þarf bráðaþjónustu vonast ég til þess að fá bestu mögulegu hjálp sem hugsast getur. Ef úti geysar óveður og ófærð er mikil vonast ég eftir að björgunarsveitarbíll komi og sæki mig, þar sem ég veit að sjúkrabíll muni ekki komast og öfugt. Ef ekki er ófærð vonast ég svo sannarlega til að sjúkrabíll komist leiðar sinnar. Þar sem ég veit að fólk er á staðarvakt og er farið af stað eftir tvær til þrjár mínútur og með miklu betri sjúkrabúnað til að halda mér lifandi.Sjúkraþyrlu (HEMS) er ekki ætlað að koma í staðinn fyrir björgunarþyrlu (SAR). Nútímasjúkraþyrla (HEMS) er einfaldlega flutningstæki eða „sjúkrabíll“, og lítill hetjuljómi yfir því en er ákaflega gagnlegt tæki og myndi styrkja innviði sjúkraflutninga og bráðaþjónustu landsins, svo um munar. Þetta er ekki síður mikilvægt með breyttar aðstæður í huga vegna sívaxandi ferðamannastraums og samdráttar heilbrigðiskerfisins utan Reykjavíkur. Sjúkraþyrla (HEMS) á Suðurlandi yrði gríðarlegur stuðningur við byggðarlögin og sveitirnar þar í kring, Vestmannaeyjar þar meðtalið. Stuðningur sjúkraþyrlunnar (HEMS) yrði á þann veg að sjúkrabílar þyrftu ekki að yfirgefa byggðarlög sín í lengri tíma vegna flutnings sjúklinga til Reykjavíkur. Ef nota ætti björgunarþyrlur (SAR) á þennan hátt yrði kostnaðurinn gríðarlegur, og í raun aldrei raunhæfur. Hins vegar er þetta vel raunhæft með sjúkraþyrlu (HEMS) þar sem kostnaður er mun minni og hægt að rukka fyrir hvert flug eins og sjúkrabílinn. Sjúkratryggingar Íslands greiða fyrir Íslendinga og erlendir ferðamenn greiða með sínum tryggingum, og þannig munu þeir taka þátt í kostnaðinum.
Skýrslan sem heilbrigðisráðherra lét gera, og kom út í ágúst 2018,er að mínu mati gagnslaust plagg fyrir ráðherra. Að undanskyldu séráliti sem Viðar Magnússon og Hjörtur Kristjánsson skiluðu,en báðir eru læknar og hafa því þekkingu á sjónarhorni sjúklingssins. Mitt álit er að í skýrslunni hafi öllu verið snúið á hvolf og of margir nefndarmenn verið búnir að ákveða niðurstöðuna áður en rannsókn fór fram. Skýrslan ber heitið „Aukin aðkoma þyrlna að sjúkraflugi“ en hefði átt að heita „Hvernig halda eigi Landhelgisgæslunni í sjúkrafluginu“. Þó nánast engin þjóð í heiminum geri það með SAR-björgunarþyrlu vegna stærðar og kostnaðar. Mistökin voru að hafa hagsmunaaðila, sem vinna vel og aðallega fyrir sína stofnun, með í þessari nefnd. Í þessari nefnd hefðu eingöngu fagaðilar á vegum heilbrigðiskerfisins átt að koma að máli, og þá hefði einhver niðurstaða fengist í málinu. Þá hefði Landhelgisgæslan komið með sitt álit og sínar tölur fyrir þá þjónustu og svo hefði nefndin fengið samanburð frá fagaðilum sjúkraþyrlna í nágrannalöndunum, sem margir hverjir hafa komið að rekstri HEMS-þjónustu í meira en 30 ár.
Nú vil ég taka fram að ég ber mikla virðingu fyrir Landhelgisgæslunni og þeirra frábæra starfi og er ég engan veginn að kasta rýrð á þeirra störf. Þvert á móti. En aðkoma þeirra að skýrslunni var ekki til þess fallin að fleyta okkur áfram inn í nútímann.
Það sem ég átti von á að sjá í skýrslunni var að þetta færi í svipaðan farveg og í öðrum löndum í kringum okkur, og nú nýlega í Danmörku. Að fenginn yrðu vanur HEMS-þyrlurekstraraðili og sett yrði af stað prufuverkefni, af einföldustu gerð, þar sem upplýsingum í eitt til tvö ár yrði safnað. Þá fengjust raunverulegar tölur sem hægt væri að byggja á, en ekki einungis byggt ágiskunum, eins og of mikið er af í skýrslunni.
Samningar um HEMS-sjúkraþyrlur hafa verið á marga vegu út í heimi. Þeir geta verið í sinni einföldustu mynd með því að hafa dagvaktir yfir sumartímann á sjónflugsreglu (VFR) og yfir í dag- og næturvaktir allt árið um kring,með nætursjónauka og blindflugi (IFR). Sem sagt samningar geta verið hluta af árinu, eða 6, 8 eða 10 mánuðir. Mig grunar að það gæti komið ráðamönnum á óvart hversu hagstæða samninga er hægt að gera við vana sjúkraþyrlurekstraraðila (HEMS) og hversu fljótt hægt er að koma upp bækistöð.
Eins og sjá má í skýrslunni er gríðalega dýrt og erfitt fyrir Landhelgisgæsluna að setja upp starfsstöðvar utan Reykjavíkur á sólarhringsvöktum. Að því gefnu fékk ég á tilfinninguna að þeir ætli sér engu að breyta nema hugsanlega koma á sólarhringsvöktum í Reykjavík. Sem er þvert á hugmyndafræði sjúkraþyrlna (HEMS), það er að staðsetja þyrluna á þeim stöðum sem þeirra er þörf.
Fyrir Ísland gæti hentað að hafa sjúkraþyrlu (HEMS) í hverjum landsþriðjungi,þ.e.a.s eina á Suðurlandi, eina miðsvæðis í norðvesturhlutanum og eina á Austurlandi.
Eftir að hafa flogið þyrlum og verið í björgunarsveitum til margra ára, haft áhuga og fylgst með þróun sjúkraþyrlna (HEMS) í langan tíma, þá er mín framtíðarsýn sú að á Íslandi verði sjúkraþyrlur (HEMS) staðsettar á svæðum þar sem þeirra er þörf og að björgunarþyrlur (SAR) verði áfram í núverandi mynd með mannskap og fjölda véla. Landhelgisgæslan myndi halda áfram að sinna sínu frábæra starfi og einbeita sér að björgun og eftirlitsflugi,ennþá meira en hún gerir í dag vegna sjúkraflutninga.
Ég held að ef mín framtíðarsýn muni rætast muni flugdeild Landhelgisgæslunnar fljótt komast að því að þetta yrði sjúklingum og flugdeildinni fyrir bestu. Sjúklingurinn fengi gjörgæslu í lofti með lækni og bráðaliða og Landhelgisgæslan gæti gert æfingatíma sína hnitmiðaðri og einbeitt sér að þeim aðstæðum sem henni er ætlað að sinna. Það veit ég að það að eyða öllum æfingatímum í flug á sólskinsdögum hjálpar ekkert í slæmum veðrum.
Ég vona að þessi grein verði til þessað vekja almenning og ráðamenn til umhugsunar og komið verði á fót prufuverkefni á Suðurlandi, ekki seinna en næstkomandi í sumar. Það er enn tími til stefnu og vel raunhæft þótt tíminn líði hratt. Til landsbyggðarfólks og ferðaþjónustuaðila biðla ég að sýna sjúkraþyrlunni (HEMS) stuðning. Það er þarfaþing að fá þetta tæki og styðja við sjúkraflutninga í landinu, og það ekki seinna en strax. Sjúkraþyrla (HEMS) mun alls ekki skemma fyrir Landhelgisgæslunni, þvert á móti. Hún mun bæta innviði Íslands til muna fyrir landsbyggðina og ferðaþjónustuna.
Sjúkraþyrla (HEMS) mun alltaf þurfa stuðning frá björgunarþyrlu (SAR) í verstu veðrunum en það þýðir alls ekki að hún sé ekki nothæf á Íslandi, því fer víðs fjarri.
Höfundur er þyrluflugmaður og véltæknifræðingur.