Samkvæmt tilkynningu frá konungsfjölskyldunni slasaðist Filippus ekki en tvær konur sem einnig lentu í slysinu voru fluttar með minniháttar meiðsl á sjúkrahús að því er segir í frétt BBC um málið.
Slysið varð laust fyrir klukkan 15 í gær þegar prinsinn ók Land Rover-jeppa sínum inn á veg A149. Vitni sögðu að jeppinn hefði oltið við áreksturinn og að þau hefðu hjálpað hertoganum út úr bílnum. Hann hefði verið ómeiddur en í miklu áfalli að sögn vitnanna.

Eitt vitni sem kom að slysinu kveðst hafa verið hissa á því að hertoginn hafi sloppið ómeiddur þar sem bíllinn sem hann ók virtist illa farinn.
Þá segir Jonny Dymond, fréttamaður BBC sem sérhæfir sig í fregnum af konungsfjölskyldunni, að það komi á óvart að hertoginn aki sjálfur enn en hann er að verða 98 ára gamall.