Loftsteinninn flaug yfir grænlensku höfuðborgina klukkan 18:54 að staðartíma í gærkvöldi. Grænland er þremur klukkustundum á eftir íslenskum tíma.
Á myndbandi sem Gustav Fischer segist hafa náð á vefmyndavél sína og deilir á Facebook má greinilega sjá hvernig steinninn lýsir upp kvöldhimininn yfir Nuuk og um stund verður svo bjart að halda mætti að sólin væri hæst á lofti.
Þá greina grænlenskir miðlar frá því að ljós frá steininum hafi sést á stóru svæði í kring um Nuuk, meðal annars í bænum Sisimiut, sem er einhverja 319 kílómetra norður af höfuðborginni.
Sævar Helgi Bragason, ritstjóri Stjörnufræðivefsins, segir í samtali við fréttastofu að þeir loftsteinar og vígahnettir, sem er það sem nógu bjartir loftsteinar eru kallaðir, sem sést hafi á ferð um himininn víðs vegar um heiminn í gærkvöldi og nótt séu líklegast hluti af Kvaðrantítar loftsteinadrífunni.
Á stjörnufræðivefnum segir þetta um loftsteinadrífur:
Þegar Jörðin ferðast í gegnum slóð ísagna sem losnað hafa af halastjörnum á leið þeirra í kringum sólina verður loftsteinadrífa. Sjást þá nokkrir tugir eða, í bestu tilvikum, nokkur þúsund stjörnuhröp á klukkustund. Í loftsteinadrífum virðast stjörnuhröpin stefna frá tilteknu stjörnumerki á himninum og eru drífurnar kenndar við þau.
Á Stjörnufræðivefnum má svo lesa meira um loftsteina.