Skoðun

Skortur á stjórnvisku í Lala-landi

Þórlindur Kjartansson skrifar
Nokkur undanfarin ár hafa áhyggjurnar byrjað á vorin og þær ágerst yfir sumarið en náð hámarki að hausti. Sagan hefur svo verið sú sama. Veturinn hefur byrjað betur en á horfðist en svo hefur syrt í álinn og fljótlega upp áramótum er orðið ljóst í hvað stefnir. Í febrúar og mars vita aðdáendur Los Angeles Lakers að öll von er úti og allt var unnið fyrir gýg.

Nú hefur hinu sögufræga liði mislukkast að komast í úrslitakeppni NBA-deildarinnar sex ár í röð. Síðast féll liðið snautlega úr keppni gegn San Antonio árið 2013. Síðan þá hafa aðdáendur eins sigursælasta íþróttaliðs heims ekki getað stært sig af neinu öðru en sívaxandi auðmýkt. Lakers hafði nefnilega einungis fimm sinnum áður mistekist að komast í úrslitakeppni NBA-deildarinnar frá stofnun hennar árið 1949. Það er mikill og hraður viðsnúningur á stríðsgæfu eins íþróttaliðs.

Allt verður að ógæfu

Síðasta haust virtist allt vera á réttri leið. Lebron James, sem gæti átt gott tilkall til að kallast besti körfuknattleiksmaður sögunnar, gekk til liðs við Lakers og var félaginu umsvifalaust spáð miklum viðsnúningi. En í fyrsta sinn á ferli sínum mátti Lebron sætta sig við að sitja heima þegar úrslitakepppnin fór fram.

Meiðsl og óheppni settu strik í reikninginn hjá Lakers á síðasta ári, en kvíðavænlegri merki um óstjórn var hins vegar að finna á skrifstofum félagsins þar sem allt virðist loga í illdeilum. Þeir sem fylgst hafa með hinu sögufræga liði eru fljótir að benda á að fjölskylduerjur í eigendahópi liðsins hafi grafið mjög undan rekstri og ákvarðanatöku. Magic Johnson, sem hafði verið kallaður til að koma böndum á innbyrðisdeilur í eigendahópnum, sagði starfi sínu lausu þegar þolinmæði hans brast gagnvart pólitískum bakstungum, illmælgi og oflátungshætti í hópi eigenda og stjórnenda. Óhamingju Englaborgarinnar verður allt að vopni. Meira að segja maðurinn sem best allra kunni að láta aðra njóta sín réð ekki við hið rotna umhverfi á skrifstofum liðsins.



Of stór egó

En fleira kemur til. Í vikunni bárust fréttir af því að enn á ný væru tvær fyrrverandi stórstjörnur Lakers komnar í hár saman þótt báðir séu orðnir sköllóttir og meira en fimmtán ár síðan þeir léku síðast saman. Kobe Bryant og Shaquille O’Neal mynduðu í upphafi aldarinnar hryggjarstykkið í óárennilegu liði Lakers. Þeir unnu saman þrjá meistaratitla í röð og fátt virtist líklegt til að koma í veg fyrir að þeir gætu haldið áfram að færa aðdáendum Lakers sigur- og sælustundir á færibandi næsta áratuginn. Rétt eins og Magic Johnson og Kareem Abdul-Jabbar gerðu Lakers að stórveldi 9. áratugarins áttu Shaq og Kobe að ríkja saman sem ósigrandi tvíeyki.

En það kom í ljós að mikill munur var á kynslóðunum tveimur. Á meðan Magic og Jabbar voru stórstjörnur vegna þess hvað þeir gerðu fyrir liðið og liðsfélagana, þá voru Shaq og einkum Kobe aldir upp í þeim hugsunarhætti að meðspilararnir væru eins og aukaleikarar í bíómynd, og allt ætti að snúast um stjörnurnar. Slíkur hugsunarháttur hefur löngum þótt óboðlegur í hópíþróttum en komst í tísku þegar persónudýrkunin í kringum Michael Jordan fór úr böndunum á tíunda áratugnum.



Allir fyrir einn en ekki einn fyrir alla

Ýmsir kostir eru við stór egó og botnlaust sjálfstraust í íþróttum. En þessir kostir eiga eingöngu við þegar þeir eru nýttir í þágu árangurs liðsheildarinnar. Ef íþróttamenn byrja að ruglast á sjálfum sér og hlutverki sínu þá líður ekki á löngu fyrr en þeir fara að verða skaðlegir öðrum liðsfélögum, árangri liðsins og að lokum sjálfum sér. Það var einmitt þetta sem gerðist hjá þeim Kobe og Shaq. Þeir gátu ekki komist að niðurstöðu um það hvor þeirra ætti að vera „aðal“—og báðir gengu þeir út frá þeirri kolröngu forsendu að það væri bráðnauðsynlegt að það væri „bara einn aðal“. Á endanum þrifust þeir ekki undir sama þaki og stjórnendur Lakers ákváðu að senda Shaquille frá liðinu til þess að rýma fyrir hinu útblásna egói hins yngri manns.

Yfirburðahæfileikar Kobe Bryant, og snjallar ráðningar á leikmönnum og þjálfurum, gerðu Lakers kleift að vinna tvo titla í viðbót áður en núverandi þurrkatíð hófst. En þegar líkamleg geta Bryants fór dvínandi má segja að örlög alls liðsins hafi verið kirfilega bundin við fallandi stjörnu. Þótt öllum væri ljóst að getu stórstjörnunnar færi hratt hnignandi þá hélt allt áfram að snúast um að nudda egó hetjunnar. Meira að segja þegar tölfræðigreiningar sýndu fram á að Kobe væri orðinn einn lélegasti leikmaður deildarinnar voru örlög liðsins áfram bundin honum—og honum einum.

Aðrir leikmenn fengu ekki að þroskast eða reyna sig almennilega, því allt liðið snérist áfram um það að gera stórstjörnunni geðstirðu til geðs. Hræðilegur árangur Lakers um þessar mundir má því rekja beint til þeirrar skekkju í hugarfari sem fékk að ráða í lok hins magnaða leikmannsferils Kobe Bryant.



Vitjunartíminn

Sögurnar af því þegar afreks- og valdafólk þekkir ekki vitjunartíma sinn eru vel þekkt minni. Rómverjarnir til forna höfðu vit á því að setja í lög að þeir sem tímabundið tóku sér alræðisvald á hættutímum þyrftu að yfirgefa borgina í tíu ár að valdatíma þeirra loknum svo þeir freistuðust ekki til að viðhalda völdum sínum. Þar höfðu Rómverjarnir fyrirmynd í hinum dyggðuga Cincinnatusi sem kallaður var til valda á hættutímum en snéri umsvifalaust og óumbeðið aftur til bóndabæjar síns eftir að hlutverki hans lauk.

Bandarísku landsfeðurnir þekktu þessa sögu vel; og þótt enginn hefði getað komið í veg fyrir ævilanga þaulsetu George Washington á forsetastóli þá ákvað hann sjálfviljugur að láta af embætti og stjórnmálaafskiptum eftir tvö kjörtímabil; og hélst sú venja og þótti heilög þar til Franklin Roosevelt lét kjósa sig fjórum sinnum. Síðar var samþykkt að takmarka embættistíð Bandaríkjaforseta við tvö kjörtímabil.



Betri tíð

Alls staðar togast á í einstaklingum eigin þrár og hagsmunir stærri heildar. Kobe Bryant er auðvitað enginn Cincinnatus eða George Washington, og í heimi íþróttanna þurfa þjálfarar og stjórnendur liða að sjá til þess að liðið sjálft sé ætíð haft í æðra öndvegi heldur en dýrðarfýsn hnignandi stjarna. Í stjórnmálum má hins vegar gera ráð fyrir að góðir menn geti haft vit fyrir sjálfum sér, þekki vítin sem varast þarf og stilli sig um að setja eigin þarfir um völd og aðdáun ofar hagsmunum þeirra sem tekið hafa við keflinu. Á þessu munu þó vera misbrestir.

En, eins og allir sjá, þá er þetta pistill um körfubolta en ekki stjórnmál. Samt er ekki annað hægt en að velta fyrir sér hversu heimur Lakers aðdáenda væri betri ef Kobe Bryant hefði haft aðeins meiri stjórnvisku. En öll él birtir upp um síðir; og nú má leyfa sér að vona að Lebron James og Anthony Davis þrífist betur saman en Kobe og Shaq gerðu á sínum tíma.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×