Leikarinn Kevin Spacey lýsti yfir sakleysi sínu í dómsal í dag þar sem hann mætti vegna ákæru fyrir kynferðisbrot gegn táningi. Hin meinta árás á hafa átt sér stað á öldurhúsi í Massachusetts fyrir tveimur árum. Þá er Spacey sagður hafa keypt áfengi fyrir 18 ára gamlan dreng og síðan káfað á honum. Lögaldur fyrir áfengisdrykkju í Massachusetts er 21 ár.
Verði hann fundinn sekur gæti hann verið dæmdur til allt að fimm ára fangelsisvistar. Áður hefur Spacey verið sakaður um kynferðislega áreitni af að minnsta kosti tveimur mönnum.
Sjá einnig: Kevin Spacey ákærður fyrir kynferðisbrot gegn táningi
Lögmenn Spacey lýstu yfir sakleysi hans í dag og sögðu umfangsmikla galla á málflutningi ákæruvaldsins. Þeir sögðu engin vitni hafa komið fram og sagst hafa verið vitni af hinu meinta káfi. Þar að auki segja þeir drenginn hafa logið um aldur sinn, þáð drykki sem Spacey keypti, farið með honum út að reykja og látið Spacey fá símanúmer hans.
Þeir sögðu að um saklaust daður á milli tveggja aðila hefði verið að ræða.
Réttarhöldin munu halda áfram í mars.
Mikið öngþveiti skapaðist þegar Spacey gekk brosandi inn í dómsalinn í dag. Þá höfðu á þriðja tug blaðamanna komið sér fyrir í salnum sjálfum, mörgum klukkustundum áður en Spacey mætti. Sjá má herlegheitin hér að neðan.
Spacey hafði farið fram á að sleppa við að mæta í dómsal og sagði að vera hans myndi gera illt verra. Dómari málsins hafnaði þeirri kröfu.