Viðskipti innlent

Tólf starfsmönnum sagt upp hjá Heklu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Forstjóri Heklu segir að samdráttur í bílasölu undanfarin misseri sé ástæða uppsagnanna nú.
Forstjóri Heklu segir að samdráttur í bílasölu undanfarin misseri sé ástæða uppsagnanna nú. Fréttablaðið/Eyþór
Bílaumboðið Hekla sagði í dag upp tólf starfsmönnum. Uppsagnirnar eru þvert á deildir í fyrirtækinu en Friðbert Friðbertsson, forstjóri Heklu, segir að ástæða uppsagnanna sé samdráttur í bílasölu síðustu misseri.

„Það hefur verið umtalsverður samdráttur á öllum bílamarkaðnum frá síðasta hausti. Við höfðum vonast til að það myndi rætast úr en það hefur ekki gerst,“ segir Friðbert.

Aðspurður hvort hann viti hvers vegna samdráttur hafi orðið í sölu nefnir Friðbert óvissu vegna kjaraviðræðna í vetur og svo óvissunnar varðandi gjaldþrot WOW air og hvaða áhrif það myndi hafa á pyngjuna hjá almenningi.

„Svo sjálfsagt hefur fólk haldið að sér höndum á þessu tímabili,“ segir Friðbert.

Hann segir það þung spor að þurfa að grípa til þess að segja upp fólki.

 

„Okkur þykja þetta þung spor og það er vont að sjá á eftir góðu fólki. Þetta eru líka bara starfsmenn með mikla reynslu og þekkingu og það er mjög vont að missa þá.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×