Þegar kort Vegagerðarinnar yfir bundið slitlag er skoðað sést að á 44 kílómetra þjóðvegi milli Þórshafnar og Bakkafjarðar eru ennþá 27 kílómetrar af malarvegi en þetta er síðustu ómalbikuðu kaflarnir á strandleiðinni um norðausturhorn landsins. Alþingi hefur nú með samþykkt samgönguáætlunar, að tillögu umhverfis- og samgöngunefndar, markað þá stefnu að strax í sumar verði hafist handa við að klára þetta verk.
Elías Pétursson, sveitarstjóri Langanesbyggðar, segir mjög ánægjulegt að sjá hvað þingnefndin virðist taka skýra afstöðu hvað varðar veginn um Langanesströnd og í framhaldinu um veginn um Brekknaheiði.
„Það er mjög ánægjulegt fyrir okkur eftir mjög langa baráttu við það að fá þessar vegarbætur,“ segir Elías.
Þingnefndin tengir þetta við átak um eflingu byggðar við Bakkaflóa og leggur eindregið til að lagningu bundins slitlags á Langanesströnd ljúki eigi síðar en 2021. Í beinu framhaldi verður farið í veginn um Brekknaheiði og má gera ráð fyrir að honum ljúki innan sex ára.

„En það eru ekkert margir dagar sem ég kemst ekki í vinnu vegna veðurs. En vegurinn er náttúrlega alveg afleitur yfirleitt,“ segir Sigríður Ósk.
Vegarbæturnar munu gera svokallaðan norðausturhring álitlegri fyrir ferðamenn.
„Það er það sem við höfum haldið fram; að þetta hafi ekki bara áhrif á þetta sveitarfélag heldur líka á ferðaþjónustu á öllu svæðinu.
Vegna þess að það virðist vera þannig að túrismi gengur svolítið út á það að keyra í hringi en ekki fram og til baka. Og vegurinn hefur verið mikill tálmi hvað það varðar að bæði túristar og rútufyrirtæki kæmu þessa leið,“ segir sveitarstjóri Langanesbyggðar.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: