Þetta kom fram í máli Dóru Bjartar í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun, þar sem hún ræddi Braggamálið og skýrslu Innri endurskoðunar.
Komið hefur fram að tölvupóstum á fimm ára tímabili á milli aðila sem tengjast braggamálinu, verkefnastjóra hjá Skrifstofu eigna- og atvinnuþróunar og fyrrverandi skrifstofustjóra skrifstofunnar, hafi verið eytt. Ekki hefur þó verið hægt að staðfesta að á meðal hinna eyddu tölvupósta hafi verið tölvupóstar varðandi framkvæmdir að Nauthólsvegi 100, að því er segir í minnisblaði innri endurskoðanda um málið.
Tölvupóstarnir hafa verið nokkuð til umræðu en í síðasta mánuði óskuðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í borgarráði til að mynda eftir svörum um það hver samskipti Hrólfs Jónssonar fyrrverandi skrifstofustjóra Skrifstofu eigna- og atvinnuþróunar og Dags B. Borgarstjóra hefðu verið í tengslum við framkvæmdir við braggann.
Gæti verið tæknilega erfitt
Dóra Björt áréttaði að ákveðnar reglur gildi um tölvupósta sem sendir eru af starfsmönnum borgarinnar. Þannig eigi að „skjala“ mikilvæg gögn úr tölvupóstunum en einnig séu reglur í gildi um að eyða þurfi reglulega póstum til að forða því að pósthólfið fyllist.Þá hafi ekki komið fram í skýrslu innri endurskoðunar að marga tölvupósta vanti. Þar sem póstum hafi verið eytt yfir lengra tímabil en áður var haldið sé slíkt þó öllu líklegra en ella.
„Þá fór ég strax í það, og við allir oddvitar meirihlutans í það, að við sendum tölvupóst til innri endurskoðunar og báðum þá hreinlega um að halda utan um það að reyna að endurheimta þessa tölvupósta þannig að það er verið að skoða möguleikann til þess,“ sagði Dóra Björt.
„Það gæti auðvitað verið tæknilega erfitt en það er verið að skoða það. Og okkar vilji er alveg hundrað prósent í því að það gæti verið gott að gera það, til þess að hafa þetta alveg á hreinu.“