Körfubolti

Borche: Ekki enn búinn að átta mig á því sem við höfum gert

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Borche náði að stilla sína menn rétt af fyrir oddaleikinn.
Borche náði að stilla sína menn rétt af fyrir oddaleikinn. vísir/andri marinó
Borche Ilievski, þjálfari ÍR, var að vonum í skýjunum eftir sigur hans manna á Stjörnunni, 79-83, í oddaleik í Garðabænum í kvöld.

„Ég er mjög ánægður og mjög hátt uppi. Ég er ekki enn búinn að átta mig á því sem við höfum gert,“ sagði Borche í samtali við Vísi eftir leik.

ÍR átti einnig möguleika á að tryggja sér sæti í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn í fjórða leiknum gegn Stjörnunni á mánudaginn. Hann tapaðist og Borche viðurkenndi að hann og leikmennirnir hafi verið of stressaðir í leiknum.

„Við brunnum út í fjórða leiknum í Seljaskóla. Við vorum allir of spenntir því þetta gat orðið söguleg stund fyrir ÍR. Við vorum ekki nógu klárir, urðum fljótt taugaveiklaðir og Stjarnan refsaði okkur. En undirbúningurinn fyrir þennan leik var miklu betri. Við erum komnir í úrslit þótt ég trúi því ekki ennþá,“ sagði Borche.

ÍR spilaði frábæra vörn á Ægi Þór Steinarsson og Brandon Rozzell sem skoruðu aðeins samtals 17 stig.

„Þeir voru sjóðheitir í síðasta leik og sem betur fer kólnuðu þeir. Eftir fjórða leikinn vissi ég að við þyrftum að einbeita okkur að því að stöðva þá,“ sagði Borche sem hafði ekki áhyggjur þegar Sigurður Gunnar Þorsteinsson fékk sína fimmtu villu um miðbik 4. leikhluta.

„Nei, Trausti [Eiríksson] getur skilað sínu, sérstaklega í vörninni.“

Daði Berg Grétarsson var í byrjunarliði ÍR í fyrsta sinn í úrslitakeppninni. Borche segir að verkefni hans hafi verið einfalt og hann hafi leyst það fullkomlega.

„Hans hlutverk var að stöðva Brandon og hann gerði það. Svo skoraði hann fimm stig. Hann er maður einvígisins,“ sagði Borche sem hlakkar til úrslitaeinvígisins gegn KR.

„Við ætlum að fara alla leið,“ sagði þjálfarinn að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×