Íslenski boltinn

Afturelding og Þróttur áfram í bikarnum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Þórhallur Siggeirsson og Halldór Geir Heiðarsson þjálfa Þrótt
Þórhallur Siggeirsson og Halldór Geir Heiðarsson þjálfa Þrótt Mynd/Heimasíða Þróttar
Afturelding tryggði sér sæti í 32-liða úrslitum Mjólkurbikars karla með sigri á Selfossi í miklum markaleik í Mosfellsbæ. Þróttur Reykjavík vann sigur á Reyni frá Sandgerði.

Hrovje Tokic skoraði fyrsta markið fyrir gestina sunnan heiða úr vítaspyrnu á 23. mínútu leiksins. Heimamenn jöfnuðu hins vegar stuttu seinna og var Ragnar Már Lárusson þar á ferð eftir stoðsendingu Jökuls Jörvars Þórhallssonar.

Staðan var jöfn 1-1 í hálfleik. Ragnar Már var ekki lengi að koma heimamönnum yfir en hann gerði það með því að koma boltanum á milli fóta Stefáns Þórs Ágústssonar í marki Selfyssinga.

Selfyssingar jöfnuðu leikinn á 71. mínútu, það gerði Valdimar Jóhannsson.

Aðeins tveimur mínútum síðar lenti Stefán Þór í því óláni að missa boltann frá sér og Hlynur Magnússon var mættur til þess að refsa markverðinum unga fyrir mistökin.

Selfyssingar náðu ekki að jafna leikinn aftur og því lauk leik með 3-2 sigri Aftureldingar.

Í Laugardalnum var minna um mörkin, það komu aðeins tvö mörk í leik Þróttar og Reynis Sandgerði.

Fyrra markið gerði Jasper van der Heyden á 20. mínútu leiksins. Gústav Kári Óskarsson gulltryggði svo sigur Þróttar með marki á lokamínútu leiksins, 2-0 niðurstaðan á Eimskipsvellinum.

Afturelding og Þróttur verða því í pottinum þegar dregið verður til 32-liða úrslita í næstu viku en bikarþátttöku Selfyssinga og Reynismanna er lokið þetta árið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×