Innlent

Áhöfn í leiguflugi WOW kölluð heim frá Miami

Birgir Olgeirsson skrifar
WOW segir viðræður við leigusala tveggja véla sem hafa verið kyrrsettar ganga vel.
WOW segir viðræður við leigusala tveggja véla sem hafa verið kyrrsettar ganga vel. vísir/vilhelm
Búið er að kalla áhöfn WOW Air heim frá Miami sem var í leiguflugi fyrir félagið á milli Flórída og Kúbu. Svana Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW Air, segir flugfélagið vinna náið með leigusala tveggja véla WOW sem hafi verið kyrrsettar að beiðni leigusalans.

Önnur þeirra heitir TF-PRO og hefur verið kyrrsett í Montreal í Kanada en hin er TF-NOW sem hefur verið kyrrsett á Miami í Bandaríkjunum. Leigusali flugvélanna er fyrirtæki sem nefnist Jin Shan 20, að því er fram kemur á vef Samgöngustofu, og er skráð á Írlandi. Flugvélarnar sem um ræðir eru af gerðinni Airbus A321-211.

Svana segir viðræðurnar við leigusalan ganga mjög vel en WOW verði hins vegar ekki með áhöfn í leiguverkefninu sem snýr að Kúbu-fluginu á meðan þær viðræður standi yfir.

Samningur WOW Air við leigusalan sé enn í fullu gildi og að hann hafi sýnt skilning á þeirri endurskipulagningu sem nú fari fram á rekstri WOW air.

TF-Pro var kyrrsett á flugvellinum í Montreal á mánudag en áætlunarflug WOW hefur verið framhaldið með öðrum flugvélum í flota félagsins

Eigendur WOW Air vinna nú hörðum höndum að því að útvega fimm milljarða króna í nýtt hlutafé til að tryggja rekstur félagsins. Svana segir ekki tímabært að tjá sig um framgang þeirra viðræðna að svo stöddu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×